Grindavík lagði ÍR í kvöld í 4. umferð Subway deildar karla. Eftir leikinn er Grindavík með tvo sigra og tvö töp það sem af er tímabili á meðan að ÍR hefur unnið einn og tapað þremur.

Engan vantaði í hóp Grindavíkur fyrir leik kvöldsins, en hjá ÍR var Sigvaldi Eggertsson enn frá vegna meiðsla og þá var nýr bandarískur leikmaður þeirra Taylor Johns ekki kominn með leikheimild.

Heimamenn í Grindavík byrjuðu leik kvöldsins betur. Leiddu með 7 stigum eftir fyrsta leikhluta, 26-19. Því náðu gestirnir úr Breiðholti þó að svara undir lok fyrri hálfleiksins og voru sjálfir sex stigum yfir þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik, 41-47.

Leikurinn er svo í miklu jafnvægi í upphafi seinni hálfleiksins, þar sem munurinn fyrir lokaleikhlutann var tvö stig heimamönnum í vil, 63-61. Heimamenn gera svo vel í þeim fjórða. Láta forystuna aldrei af hendi og sigla að lokum nokkuð óöruggum, en sterkum fimm stiga sigur í höfn, 84-79.

Bestur í liði Grindavíkur var Jón Axel Guðmundsson með 23 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar. Fyrir ÍR var það Collin Pryor sem dró vagninn með 20 stigum og 8 fráköstum.

ÍR á næst leik komandi sunnudag 30. október gegn Stjörnunni í 16 liða úrslitum VÍS bikarkeppninnar á meðan að Grindavík leikur degi seinna gegn Ármann.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Ingibergur Þór)