Tindastóll tók á móti ÍR í annarri umferð Subway deildar karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. ÍR vann Njarðvík nokkuð óvænt í fyrstu umferðinni en Stólar töpuðu naumlega fyrir Keflavík.

Bæði lið voru löskuð fyrir leikinn, ÍR-ingar höfðu rekið Tylon Birts og hjá Tindastól var Drungilas í banni og Arnar Björnsson meiddist á æfingu og gat ekki tekið þátt.

Tindastóll hóf leikinn af miklum krafti á meðan gestirnir virkuðu flatir og ekki alveg tilbúnir í ákafan leik heimamanna. Jafnt var á komið með liðunum fyrstu 5 mínúturnar en svo náðu Stólar góðum sprett og skildu gestina eftir í rykinu. Zoran Vrkic og Keyshawn Woods settu 8 stig í röð án andsvars og munurinn orðinn 9 stig þegar Ísak tók leikhlé í stöðunni 20-11. Leikhléið dugði ekki til að breyta neinu og gamla kempan Axel Kárason kom stöðunni fljótlega í 27-13 með sínum fyrsta þrist í vetur. Eftir fyrsta leikhluta var staðan orðin 31-13 og ljóst að mikil brekka var framundan hjá gestunum.

Breiðhyltingar eru þó þekktir fyrir allt annað en að gefast upp og gerðu gott áhlaup á Stólana og þristar frá Sigvalda og Paasoja sáu til þess að munurinn var kominn niður í 10 stig um miðjan 2. leikhluta. Þá tók Taiwo Badmus til sinna ráða með troðslu og þrist auk tveggja vítaskota og kom muninum aftur í 17 stig. Ólseigir ÍR-ingar héldu þó áfram að berjast og náðu að minnka muninn í 8 stig rétt um miðjan 3. leikhluta, 56-48. Heimamenn virtust þó alltaf eiga svör bæði í vörn og sókn og fóru ekki á taugum.

Þristur frá Woods og troðsla frá Taiwo settu muninn í 15 stig seint í leikhlutanum en Jónas Steinarsson kláraði leikhlutann með flautukörfu, spjaldið niður 3 stig og munurinn 12 stig fyrir lokaátökin. Þristur frá Sigvalda í upphafi 4. leikhluta hélt voninni lifandi en 9 stig í röð frá heimamönnum gerðu út um leikinn og komu muninum í 20 stig, 79-59 og ÍR kastaði inn handklæðinu í raun þegar 5 mínútur voru eftir. Virkuðu þreyttir enda mikil keyrsla og heimamenn létu þá hafa fyrir öllum aðgerðum.

Hinir frægu ´Minni spámenn´ kláruðu svo leikinn sem endaði með 15 stiga sigri heimamanna 85-70.

Hjá gestunum var Massarelli öflugastur, gríðarlega fljótur leikmaður sem Stólar réðu illa við. Pryor skilaði sínu með 11 stig og 7 fráköst en tapaði 4 boltum. Sigvaldi bætti svo 12 stigum á töfluna en hefur verið meira áberandi.

Tindastóll virtist ekki sakna þeirra tveggja byrjunarliðsmanna sem voru fjarri, vörnin var gríðarsterk á köflum og menn áttu góða spretti til skiptis í sókninni. Stigahæstur var Taiwo með 26 stig og 27 framlagsstig og Keyshawn bætti 22 stigum við og báðir voru með góða skotnýtingu. Frákastabaráttan var jöfn en gestirnir tapa 20 boltum og slíkt gerir mönnum erfitt að vinna körfuboltaleiki.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Umfjöllun, myndir og viðtal / Hjalti Árna