Grindavík lagði nýliða ÍR í kvöld í 7. umferð Subway deildar kvenna, 90-72. Eftir leikinn er Grindavík í 5.-7. sæti deildarinnar með 4 stig líkt og Breiðablik og Fjölnir á meðan að ÍR er eitt liða í neðsta sætinu, enn án sigur eftir fyrstu sjö umferðirnar.

Á dögunum tilkynntu nýliðarnir að þjálfari liðsins Ari Gunnarsson hefði yfirgefið liðið, en í leik kvöldsins tók aðstoðarþjálfari karlaliðs félagsins Baldur Már Stefánsson.

Segja má að heimakonur í Grindavík hafi haft tögl og haldir allt frá fyrstu mínútu leiks kvöldsins. Byggja hægt og rólega upp forystu sína, sem er 14 stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 55-41 og 12 stig fyrir lokaleikhlutann, 73-61. Að lokum vinna þær svo frekar verðskuldaðan 18 stiga sigur, 90-72.

Atkvæðamest fyrir Grindavík í leiknum var Danielle Rodriguez með 18 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar. Fyrir gestina úr Breiðholti var það Sólrún Sæmundsdóttir sem dró vagninn með 15 stigum og 4 stoðsendingum.

Bæði lið eiga leik næst komandi miðvikudag 2. nóvember, en þá mætir Grindavík liði Fjölnis í Dalhúsum og ÍR fær Hauka í heimsókn.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Ingibergur Þór)