Njarðvík lagði Hött í kvöld í 2. umferð Subway deildar karla, 86-91. Bæði höfðu liðin tapað leikjum sínum í fyrstu umferðinni og var sigurinn því sá fyrsti sem Njarðvík vinnur á tímabilinu.

Gangur leiks

Njarðvík byrjaði leik kvöldsins mun betur. Setja 30 stig á heimamenn í fyrsta leikhlutanum og leyfa aðeins 16. Undir lok fyrri hálfleiksins nær Höttur að rétta sinn hlut og er munurinn aðeins 2 stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 39-41.

Höttur nær að halda dampi í upphafi seinni hálfleiksins og er leikurinn í nokkru jafnvægi í þriðja leikhlutanum. Höttur þó komnir stigi á undan fyrir þann fjórða, 63-62. Í lokaleikhlutanum nær Njarðvík að síga framúr á lokamínútunum og sigra leikinn að lokum með 5 stigum, 86-91.

Atkvæðamestir

Fyrir heimamenn var Timothy Guers atkvæðamestur með 24 stig, 5 fráköst og Nemanja Knezevic bætti við 11 stigum, 10 fráköstum og 8 stoðsendingum.

Fyrir gestina úr Njarðvík skilaði Dedrick Basile 29 stigum, 7 fráköstum og 9 stoðsendingum. Honum næstur var Lisandro Rasio með 11 stig og 7 fráköst.

Hvað svo?

Höttur á leik næst þann 20. október gegn Þór í Þorlákshöfn á meðan að Njarðvík leika degi seinna gegn Tindastól í Ljónagryfjunni.

Tölfræði leiks