KR lagði Þór í kvöld í 4. umferð Subway deildar karla. Bæði lið voru án sigurs í fyrstu þremur umferðunum og eru KR því nú með einn sigur á meðan að Þór heldur áfram að reyna í næstu umferð.

Það voru gestirnir úr Vesturbæ sem hófu leik kvöldsins af miklu meiri krafti. Náðu að setja 39 stig í fyrsta leikhlutanum og voru 17 stigum yfir að honum loknum, 22-39. Heimamenn í Þór ranka þá aðeins við sér og ná að laga stöðuna aðeins áður en liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 47-54.

KR nær aftur að koma sterkt til leiks í upphafi seinni hálfleiksins og koma forystu sinni aftur í tveggja stafa tölu fyrir lokaleikhlutann, 74-84. Þór gerir hinsvegar gífurlega vel í fjórða leikhlutanum að vinna á forskoti KR og ná undir lok venjulegs leiktíma, með undraverðri flautukörfu frá Davíði Arnari Ágústssyni, að jafna leikinn svo framlengt er í stöðunni 106-106.

Í framlengingunni nær KR að vera skrefinu á undan, mikið til að þakka stórum þrist frá Degi Kár Jónssyni og góðri nýtingu hans af gjafalínunni undir lokin. Niðurstaðan að lokum þriggja stiga sigur KR 118-121.

Stigahæstur fyrir KR í kvöld var Dagur Kár Jónsson með 35 stig á meðan að Pablo Hernandez setti 36 stig fyrir heimamenn í Þór.

Tölfræði leiks