Keflavík lagði heimakonur í Val í kvöld í 4. umferð Subway deildar kvenna, 75-78. Eftir leikinn er Keflavík eitt liða í efsta sæti deildarinnar með fjóra sigra úr fyrstu fjórum umferðunum á meðan að Valur hefur unnið tvo og tapað tveimur.

Gangur leiks

Valur byrjaði leik kvöldsins betur, en Keflavík var ekki langt undan. Líkt og í leikjum nú í byrjun tímabils var Keflavík mikið að vinna með að pressa boltann allan völlinn. Uppskáru 8 tapaða bolta frá Val í fyrsta leikhlutanum, sem þó voru 4 stigum yfir eftir þann fyrsta, 22-18. Með mikilli seiglu nær Keflavík að halda í við heimakonur undir lok fyrri hálfleiksins. Gera gott betur en það undir lok annars leikhlutans þegar með þrist frá Önnu Ingunni Svansdóttur þær komast í fyrsta skipti yfir í leiknum. Staðan 32-35 þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik.

Stgahæst fyrir Val í fyrri hálfleiknum var Kiana Johnson með 9 stig, en fyrir Keflavík var Karina Denislavova einnig með 9 stig.

Heimakonum í Val gekk betur að koma boltanum ofaní körfuna í upphafi þess þriðja heldur en í öðrum leikhlutanum, passa boltann betur og uppskera 5 stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 56-51. Með nokkuð sterku áhlaupi nær Keflavík aftur að komast í forystu í upphafi fjórða leikhlutans. Leiða með 5 stigum þegar rétt rúmar 3 mínútur eru eftir af leiknum, 63-68. Undir lok leiksins gerir Valur vel í að búa sér til tækifæri til þess að jafna leikinn. Lokaskot Kiana Johnson geigar þó og Keflavík hefur sigur, 75-78.

Atkvæðamestar

Daniela Wallen var best í liði Keflavíkur í kvöld með 28 stig, 6 fráköst, 5 stoðsendingar og 6 stolna bolta. Henni næst var Karina Denislavova með 20 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar.

Fyrir Val voru Ásta Júlía Grímsdóttir með 11 stig, 16 fráköst og Kiana Johnson með 22 stig og 7 stoðsendingar.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst þann 19. október. Keflavík fær nýliða ÍR í heimsókn í Blue Höllina á meðan að Valur heimsækir Grindavík í HS Orku Höllina.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)