Keflavík lagði Tindastól í fyrstu umferð Subway deildarinnar í kvöld, 82-80.

Fyrir leik

Báðum liðum hafði verið spáð góðu gengi í vetur. Keflavík spáð í efsta sætinu af forráðamönnum og leikmönnum félaga, en Tindastóli öðru sætinu. Í spá fjölmiðla höfðu liðin hinsvegar sætaskipti, þar sem að Tindastóli var spáð efsta sætinu, en Keflavík öðru.

Gangur leiks

Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað og ljóst var frá fyrstu mínútu að bæði lið myndu leggja allt í sölurnar til þess að ná í sigur. Stólarnir hafa yfirhöndina lungann úr fyrsta fjórðungnum og með þremur þristum frá Arnari Björnssyni undir lok leikhlutans ná þeir að skapa smá bil og eru 6 stigum yfir fyrir annan leikhlutann, 24-30. Undir lok fyrri hálfleiksins lætur Tindastóll svo kné fylgja kviði og ná mest 14 stiga forystu í öðrum leikhlutanum. Með miklum herkjum nær Keflavík að minnka muninn á síðustu mínútum hálfleiksins. Staðan 46-51 þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik.

Stigahæstir fyrir Tindastól í fyrri hálfleiknum voru Adomas Drungilas og Arnar Björnsson, hvor um sig með 13 stig á meðan að Eric Ayala var kominn með 14 stig fyrir heimamenn.

Seinni hálfleikurinn fór svo af stað með miklu fjöri. Á fyrstu mínútum hans gefur leikmaður Tindastóls Adomas Drungilas gömlum fjandmanni sínum Dominykas Milka vænt olnbogaskot og uppsker að launum brottrekstur úr húsinu. Keflavík nær í framhaldinu að komast yfir. Stólarnir gera þó virkilega vel á þessum fyrstu mínútum án síns stigahæsta manns og eru aðeins fimm stigum undir fyrir lokaleikhlutann, 69-64.

Í þeim fjórða er leikurinn stál í stál. Liðin skiptast á snöggum áhlaupum og munar aðeins einu stigi á liðunum þegar rúmar tvær mínútur eru eftir, 76-75. Keflavík er svo nokkrum stigum yfir á lokasekúndunum, en Stólunum tekst að búa sér til færi til þess að vinna leikinn í lokasókn sinni. Skot Taiwo Badmus er þó alltof seint og langt frá því að fara niður og Keflavík vinnur leikinn með 2 stigum, 82-80.

Atkvæðamestir

Eric Ayala var atkvæðamestur í liði Keflavíkur með 21 stig og þá skilaði Hörður Axel Vilhjálmsson 15 stigum og 9 stoðsendingum.

Fyrir Tindastól var það Keyshawn Woods sem dró vagninn með 22 stigum og Arnar Björnsson var honum næstur með 16 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst þann 13. október. Keflavík gegn Stjörnunni í MGH á meðan að Tindastóll fær ÍR í heimsókn í Síkið.

Tölfræði leiks

Myndasafn (SBS)