Keflavík lagði Hauka í kvöld í toppslag Subway deildar kvenna, 75-66.. Keflavík hefur þá eitt liða unnið alla leiki sína þessar fyrstu þrjár umferðir á meðan að Haukar hafa unnið tvo og tapað einum.

Gangur leiks

Liðin skiptast á snöggum áhlaupum í upphafi leiks. Lengst af er Keflavík körfu á undan, en undir lok fyrsta leikhlutans ná gestirnir úr Haukum að snúa taflinu sér í vil og eru stigi yfir fyrir annan leikhluta, 21-22. Undir lok fyrri hálfleiksins nær Keflavík aftur að vera skrefinu á undan og eru fimm stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 40-35.

Stigahæst fyrir Keflavík í fyrri hálfleiknum var Daniela Wallen með 14 stig á meðan að Tinna Guðrún Alexandersdóttir var komin með 13 stig fyrir Hauka.

í upphafi seinni hálfleiksins ná heimakonur í Keflavík svo í fyrsta skipti aðeins að slíta sig frá gestunum. Ná mest átta stiga forystu í þriðja fjórðungnum. Haukar gera þó vel að missa þær ekki of langt frá sér, setja saman ágætis áhlaup undir lok fjórðungsins og er munurinn aðeins 3 stig fyrir þann fjórða, 56-53.

Haukar ná að jafna leikinn á fyrstu mínútum lokaleikhlutans í stöðunni 59-59 þegar sjö mínútur eru eftir af leiknum. Leikurinn var svo stál í stál fram á lokamínúturnar. Undir lokin ná heimakonur þá í enn eitt skiptið að síga framúr og vinna leikinn að lokum með 9 stigum, 75-66.

Atkvæðamestar

Daniela Wallen var best í liði Keflavíkur í kvöld með 26 stig, 11 fráköst og 5 stolna bolta. Þá bætti Karina Denislavova við 16 stigum, 5 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Fyrir Hauka var Keira Robinson atkvæðamest með 21 stig, 9 fráköst og Tinna Guðrún Alexandersdóttir henni næst með 17 stig og 6 fráköst.

Hvað svo?

Haukar eiga leik næst þann 11. október gegn Grindavík heima í Ólafssal, en Keflavík leikur degi seinna þann 12. október gegn Val í Origo Höllinni.

Tölfræði leiks