Keflavík fékk nágrannana úr Grindavík í heimsókn í Blue höllina í kvöld. Keflavík taplausar á toppi Subwaydeildarinnar og Grindavík með fjögur töp í röð í næst neðsta sæti deildarinnar. 

Leikurinn byrjaði af hörku. Bæði lið mættu vel stemmd til leiks. Keflavíkur stúlkur fengu mikið af villum dæmdar á sig og Grindvíkingar komust í bónus upp úr miðjum leikhluta. Taflið snérist svo við og Grindavíkur stúlkur fengu dæmdar á sig nokkrar villur í röð þannig að Keflavík komst í bónus. Hörku leikur í uppsiglingu, lítið um auðveld skot og þéttings föst vörn spiluð af báðum liðum. Staðan eftir fyrsta leikhluta 19 – 17 heimaliðinu í vil. 

Baráttan gleymdist ekki í leikhlé hjá hvorugu liði. Gestunum gekk betur að finna körfuna fyrstu mínúturnar og komust yfir. Grindavík leiddi um miðbik leikhlutans, Keflavík elti og jafnaði reglulega en komust ekki yfir, fyrr en tæpar 3 mínútur voru eftir af leikhlutanum. Grindavík voru þá komnar í bónus og nýttu sér það vel, komust aftur yfir og bættu í. Keflavík náðu aðeins að klóra í bakkann í lokinn. Frábær fyrri hálfleikur. Elma með 12 stig og Daniella frábær með 21 stig fyrir Grindavík. Næstum nafna hennar Daniela með 10 og Birna með 10 af bekknum fyrir Keflavík. Staðan í hálfleik 39 – 40 fyrir Grindavík. 

Spennustigið hækkaði bara i hálfleik. Liðin komu af krafti inn í þriðja leikhluta. Leikurinn var í járnum framan af, liðin skiptust á að skora. Keflavík komst yfir um miðbik leikhlutans. Það var ekki mikið skorað í leikhlutanum en hitinn í báðum liðum í algjöru hámarki. Staðan eftir þriðja leikhluta 56 – 51 Keflavík í vil. 

Grindavíkur stúlkur tóku forystuna aftur eftir um tvær mínútur í fjórða leikhluta. Það varði skammt, því Keflavík var komið aftur yfir í næstu sókn. Jafnt var með liðunum fram yfir miðbik leikhlutans. Keflavík náðu svo að koma sér tveim körfum yfir þegar rúmar 3 mínútur voru eftir leiks. Þær héldu vel á spilunum og virtust yfirvegaðri í sínum aðgerðum en Grindavík sem kastaði boltanum frá sér ítrekað. Keflvíkingar bættu við og voru komnar 11 stigum yfir þegar um ein og hálf mínúta var eftir af leiknum. Keflavík kláraði leikinn örugglega og lokastaðan ekki merki um gang leiksins fyrir utan síðustu 3 mínúturnar. Hörku leikur! Lokatölur 84 – 74 Keflavík í vil. 

Byrjunarlið: 

Keflavík: Karina Denislavova Konstantinova, Daniela Wallen Morillo, Anna Ingunn Svansdóttir, Eygló Kristín Óskarsdóttir og Ólöf Rún Óladóttir. 

Grindavík: Elma Dautovic, Daniella Victoria Rodriguez,  Hekla Eik Nökkvadóttir, Amanda Akalu Iluabeshan Okadugha og Hulda Björk Ólafsdóttir. 

Hetjan: 

Daniella Victoria Rodriguez var best í liði Grindavíkur. Daniela Wallen Morillo var eins og vanalega best í liði Keflavíkur. Birna Valgerður átti frábæra innkomu, endaði stigahæst í Keflavík með 24 stig. 

Kjarninn: 

Lið Grindavíkur lítur vel út. Þær náðu ekki að klára leikinn en áttu 37 virkilega góðar mínútur. Keflavík að sama skapi líta gríðarlega vel út. Þær skipta mikið, þannig það eru alltaf ferskir fætur á vellinum og jafnvel undir gríðalegri pressu, ná þær að vera sannfærandi í sínum leik fram á síðustu sekúndu, sem gerði gæfumuninn í kvöld. Tapaðir boltar gerðu útslagið, (Keflavík 19 – 32 Grindavík) sérstaklega undir lok leiks. 

Tölfræði 

Viðtöl

Birna Valgerður Benónýsdóttir 

Hörður Axel Jóhannsson 

Þorleifur Ólafsson