Valur lagði Hauka í kvöld í lokaleik 4. umferðar Subway deildar karla. Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum í deildinni, hvort um sig með þrjá sigra og eitt tap það sem af er tímabili.

Íslandsmeistarar Vals byrjuðu leik kvöldsins betur. Leiddu með 9 stigum eftir fyrsta leikhluta, 14-23. Í öðrum leikhlutanum ná Haukar aðeins að stöðva blæðinguna, en eru samt 13 stigum undir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 27-40.

Leikurinn er svo í miklu jafnvægi í upphafi seinni hálfleiksins. Haukum tekst ágætlega að halda í við Íslandsmeistarana, en eru þó enn 12 stigum fyrir aftan eftir þrjá leikhluta, 59-71. Í lokaleikhlutanum gerir Valur það sem þarf til að hleypa heimamönnum aldrei nógu nálægt til þess að leikurinn verði spennandi. Vinna að lokum nokkuð öruggan 10 stiga sigur, 77-87.

Atkvæðamestur í liði Hauka í kvöld var Daniel Mortensen með 18 stig og 12 fráköst. Fyrir Val var það Kári Jónsson sem dró vagninn með 28 stigum, 9 fráköstum og 7 stoðsendingum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)