Jón Axel Guðmundsson, landsliðsmaður í körfubolta, skoðar nú tilboð nokkurra liða úr bandarísku G-League deildinni, sem er nokkurs konar þróunar- og varadeild fyrir NBA deildina.

Þetta staðfestir Jón Axel í samtali við vefmiðilinn mbl.is í dag.

Þau lið sem borið hafa víurnar í Jón Axel eru Santa Cruz Warriors, varalið NBA meistara Golden State Warriors, Wisconsin Herd, varalið Milwaukee Bucks, Sioux Falls Skyforce, varalið Miami Heat, Windy City Bulls, varalið Chicago Bulls og Long Island Nets, varalið Brooklyn Nets.

Fjölmargir NBA leikmenn hafa á einhverjum tímapunkti þróað leik sinn í G-League, til dæmis NBA meistararnir Danny Green og JJ Barea.