Sjötta umferð Subway deildar kvenna fór fram í kvöld með fjórum leikjum. Í Breiðholtinu tóku heimakonur á móti Breiðablik og freistuðu þess að sækja þar sinn fyrsta sigur á tímabilinu.

Þrátt fyrir að jafnræði hafi verið með liðunum í upphafi var sigur Blika aldrei í hættu. Munurinn á liðunum var orðinn tæp 30 stig í öðrum leikhluta og Blikar léku á allsoddi. Mestur varð munurinn 36 stig en ÍR setti síðustu átta stig leiksins til að laga stöðuna örlítið. Lokastaðan 54-80 fyrir Breiðablik, ansi hreint öruggur sigur þeirra grænklæddu.

Sabrina Haines leikmaður Blika var að frábær og daðraði við þrennuna með 23 stig, 14 fráköst, 9 stoðsendingar og 6 stolnir boltar. Sanja Orazovic var einnig öflug með 19 stig og Ísabella Ósk Sigurðardóttir með tvöfalda tvennu, að vanda með 17 stig, 13 fráköst og 7 stolna bolta.

Jamie Cherry var stigahæst með 15 stig fyrir ÍR og mætti 11 fráköstum við það. Greeta prus var með 10 stig. Aðrir skiluðu minna en margir leikmenn skiluðu í púkk í dag.

ÍR er enn án sigurs í deildinni eftir sex leiki og því miður er liðið bara ansi langt frá því að stela sigri. Erlendir leikmenn liðsins eru ekki nægilega góðar, taka of lítið til sín og hitta ákaflega illa. Þar fyrir utan virðast fáir leikmenn vera tilbúnir í slaginn. Jákvæðu fréttirnar fyrir ÍR er að það er nóg eftir af leikjum og hellings pláss fyrir framfarir.

Blikar eru nú með tvo sigra í 6. sæti deildarinnar. Liðið virðist vera að finna taktinn eftir slappa byrjun og þá er Sabrina að komast meira inní leik liðsins. Blikar eru vel mannaðir og ættu að eiga helling inni miðað við þessa byrjun mótsins og verður spennandi að sjá hvað gerist á næstu vikum.

Tölfræði leiksins