Liðin sem mættust í bikarnum síðasta sunnudag endurtóku leikinn í kvöld þegar Egilsstaðabúar heimsóttu evrópulið Þórs Þorlákshöfn. Það hefur oft verið óskrifuð hefð að þegar lið mætast tvisvar á stuttum tíma deila liðin sigrinum. Til að gera langa sögu stutta, gerðist það ekki í kvöld.

Gangur leiksins:

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en gestirnir voru skrefi á undan. Staðan í hálfleik var 50-47 fyrir Þórsurum. Þeir héldu forystunni örstutt í upphafi þriðja leikhluta þangað til Höttur skreið framúr. Munurinn var ekki mikill á milli liðanna og úr varð æsispennandi lokamínútur. Tim Guers kom Hetti í 79-86 með 40 sekúndur eftir á klukkunni með fjögurra stiga sókn eftir tækivillu Þórs. Þar með varð munurinn alltof mikill þrátt fyrir góðar tilraunir Þórsara til að stela sigrinum með ævintýrakörfum í lokin. Lokastaða 89-91 fyrir Hetti sem er komið á blað.

Tölfræðin lýgur ekki:

Það var ekki mikið tölfræðilega sem skilur liðin að nema þó helst sóknarfráköst Hattar sem bjó til fleiri skot þeirra. Einnig fengu gestirnir mun meira framlag frá bekknum hjá sýnu liði,, 30 stig gegn 13 hjá Þór Þ. Þar má segja að hundurinn liggi grafinn.

Kjarninn:

Höttur voru einfaldlega alltaf með þennan leik í sínum höndum. Frammistaða liðsins var sannfærandi gegn þessu Þórsliði. Jafnvægið virðist vera gott í liðinu og margir að leggja í púkk.

Skulum ekkert taka af Hetti en hvurslags körfuboltalið er þetta Þórs lið? Þarnar eru allskonar atvinnumenn sem eru ekki að gera neitt annað en að taka mínútur af heimastrákum, án þess að vera neitt betri. Það þarf algjöra uppstokkun á liðinu og byggja í kringum Styrmi Snæ sem er búinn að vera frábær. Fleiri fá ekki hrós. Eins og bláköld staðan er núna og á þessari stundu, þá er Þór Þ lélegasta lið deildarinnar. Líkurnar á að það verði það í lok deildarkeppninnar eru engar en það þarf að kalla á aðstoð og það ekki seinna en strax.

Höttur er komið á blað og situr í 10. sæti deildarinnar en liðið fær Tindastól í heimsókn eftir viku. Þórsarar eru á botni deildarinnar án stiga en mæta hinu botnliðinu, KR í næstu umferð í sannkölluðum botnslag.