Haukar lögðu Grindavík heima í Ólafssal í kvöld í Subway deild kvenna, 74-62. Haukar eftir leikinn með þrjá sigra í fyrstu fjórum umferðunum á meðan að Grindavík hefur unnið einn og tapað þremur.

Leikurinn var nokkuð jafn og spennandi í upphafi. Heimakonur í Haukum ná þó að vera skrefinu á undan eftir fyrsta leikhluta, 21-18. Undir lok fyrri hálfleiksins ná þær svo að byggja upp nokkuð þægilega forystu og er 12 stigum yfir þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik, 44-32.

Gestirnir úr Grindavík gera vel í upphafi seinni hálfleiksins að missa heimakonur ekki lengra frá sér. Ná aðeins að vinna á forystu Hauka, sem samt enn eru 8 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 53-45. Í honum gera Haukar svo vel að hleypa Grindavík ekki mikið nær en 5 stigum í upphafi þess fjórða, setja fótinn þá aftur á bensíngjöfina og sigra leikinn að lokum með 12 stigum, 74-62.

Atkvæðamest fyrir Hauka í leiknum var Keira Robinson með laglega þrennu, 19 stig, 14 fráköst, 10 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Henni næst var Eva Margrét Kristjánsdóttir með 17 stig og 8 fráköst.

Fyrir Grindavík var það Danielle Rodriguez sem dró vagninn með 15 stigum, 11 fráköstum og Hekla Eik Nökkvadóttir bætti við 15 stigum.

Bæði lið eiga leik næst þann 19. október. Grindavík gegn Val í HS Orku Höllinni á meðan að Haukar mæta Fjölni í Dalhúsum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Ingibergur Þór)