Breiðablik tók á móti Haukum í Subway deild kvenna í gærkvöldi. Fyrir leik voru Haukar í öðru sæti deildarinnar, en Blikar sátu í því fimmta.

Haukar byrjuðu leikinn umtalsvert betur og höfðu sautján stiga forskot eftir fyrsta leikhluta, 10-27. Blikar náðu aldrei að minnka þann mun að neinu ráði það sem eftir lifði leik, munurinn var 16 stig í hálfleik, 24-40 og 28 stig fyrir lokafjórðunginn, 36-64.

Að lokum unnu gestirnir úr Hafnarfirði öruggan tuttugu stiga sigur, 54-74 og sitja því enn í öðru sæti deildarinnar með einn tapleik.

Stigahæst Hauka var Eva Margrét Kristjánsdóttir með flotta tvennu, 16 stig og 14 fráköst, en hjá Blikum var Sanja Orozovic stigahæst með 20 stig.

Næsti leikur Hauka er á útivelli gegn nýliðum ÍR, miðvikudaginn 2. nóvember, en sama kvöld taka Blikar á móti Val.