Heimamenn í Haukum tóku á móti Þór frá Þorlákshöfn í Ólafssal í lokaleik 2. umferðar í Subway-deild karla í kvöld. Haukar leiddu lengstum í leiknum og unnu að lokum sex stiga sigur. Nýliðarnir byrja því á tveimur sigrum en meistararnir frá því í fyrra eru án sigurs.

Það var jafnræði með liðunum í fyrsta leikhluta en í öðrum leihluta náðu heimamenn að byggja upp fimmtán stiga forskot og leiddu með tíu stigum í hálfleik. Í 3. leikhluta náðu Þórsarar einu sinni að komast yfir en Haukar svöruðu strax og létu forystuna aldrei af hendi út leikinn. Á lokasprettinum fór munurinn minnst niður í þrjú stig.

Áhugaverð tölfræði

Annan leikinn í röð kom næstum allt stigaskor Hauka frá byrjunarliðsmönnum, Alexander Knudsen skoraði þrjú stig af bekknum en varamenn Þórs skoruðu alls 34 stig í leiknum.

Daniel Mortensen spilaði rétt tæplega 36 mínútur og á þeim mínútum töpuðu Haukar með sex stigum. Skotnýting Hauka var ekki góð, 38% í leiknum en þrátt fyrir lélega nýtingu skoraði liðið 90 stig. Skotnýting Þórs var 43% en liðið tapaði tveimur fleiri boltum, og nýtti einungis 7 af 12 (58%) vítaskotum sínum. Haukar fóru þá alls í 103 sóknir en Þórsarar einungis í 97, munar um sex sóknir.

Enginn DD en SS sneri aftur

Hjá Haukum var enginn Darwin Davis Jr. vegna meiðsla. Róbert Sigurðsson kom inn í byrjunarliðið og átti mjög góðan leik. Róbert skilaði sextán stigum og var hæstur allra á vellinum í +- tölfræði, Haukar unnu með fjórtán stigum þær tæpu 32 mínútur sem hann spilaði. Mate Dalmay, þjálfari Hauka, sagði í viðtali við Körfuna eftir leik að DD gæti náð næsta deildarleik sem er gegn KR en það væri þó ekki pottþétt.

Hjá Þór spilaði Styrmir Snær Þrastarson sinn fyrsta leik með Þór síðan liðið varð meistari fyrir rúmu ári síðan. Styrmir hitti ekki vel í leiknum en hirti átta fráköst og vann Þór með ellefu stigum þær rúmu 29 mínútur sem hann spilaði. Styrmir spilaði leikinn ósofinn eins og hann sagði frá í viðtali eftir leik.

„Styrmir gefur okkur orku, góðan varnarleik og meira ‘transition’. Þessi leikur er ekki alveg marktækur. Fyrst að hann var tilbúinn til að fara í búning þá ákváðum við að láta hann spila,” sagði Lárus Jónsson, þjálfari Þórs, í viðtali eftir leik.

Bestu menn leiksins

Hjá Haukum átti Norbertas Giga góðan leik, skoraði 20 stig, tók sautján fráköst og fiskaði fimm villur. Giga var einungis með 38% tveggja stiga nýtingu og voru margar tilraunirnar ekki í jafngóðum takti og þær sem hann átti í fyrstu umferð. Hilmar Smári Henningsson skoraði 23 stig og var stigahæstur á velinum. Hilmar átti auk þess fimm stoðsendingar og var 4 af 10 fyrir utan þriggja stiga línuna.

Hjá Þórsurum var Alonzo Walker framlagshæstur með 26 framlagsstig. Hann skoraði átján stig, tók ellefu fráköst og skoraði úr 8 af 15 skottilraunum sínum. Alonzo hefði að mínu mati átt að gera meira í leiknum þar sem hann árásir voru þær mest sannfærandi hjá Þórsurum í leiknum. Pablo Hernandez frá Galisíu átti einnig góðan leik, skoraði þrettán stig, tók sjö fráköst og barðist mikið þær nítján mínútur sem hann spilaði.

Hver á að vera skorari Þórsara?

Fyrir mér vantar augljósari fyrsta kost í sóknarleik Þórs og sóknarleikur liðsins er alls ekki spennandi. Sóknarleikur Hauka var að sama skapi ekki mjög spennandi í þessum leik en sigurinn endaði þeim megin. Hver á að taka skotið þegar Þórsarar þurfa að fá stig? Það kæmi mér ekki á óvart ef það yrðu frekari mannabreytingar hjá Þórsurum.

Breiður hópur og margir sem fá margar mínútur

Hjá Þór spiluðu níu leikmenn yfir tíu mínútur í leiknum og enginn yfir 30 mínútur.

Þá vakti einnig athygli að Emil Karel Einarsson spilaði núll mínútur í kvöld. „Við erum bara með breiðan hóp og ákváðum að spila honum ekki í dag,” sagði Lárus eftir leik.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Væntanlegt)