Það var nokkuð ný staða fyrir bæði liðin sem mættust á Meistaravöllum í vesturbæ Reykjavíkur, KR og Grindavík. Þar sem báðum liðum er spáð brösugu gengi, sem er staða sem hvorugt liðið kannast við.

Það blés ekki byrlega fyrir heimamenn þar sem amerískur leikmaður liðsins Michael Mallaory meiddist eftir tæplega tveggja mínútna leik. Þó má segja að það hafi verið mjög jafnt með liðum frá upphafi til enda. Staðan í hálfleik var 34-35 fyrir Grindavík.

Gríðarleg spenna var á lokasprettinum þar sem jafnt var með liðum. Þegar hálf mínúta var eftir af leiknum stelur Valdas Vasylius leikmaður Grindavíkur boltanum af Þorvaldi Orra og setti auðvelda körfu fyrir vikið. Það var síðasta karfa venjulegs leiktíma er Valdas jafnaði leikinn 73-73. Þrátt fyrir tilraunir beggja liða til að stela sigrinum endaði leikurinn jafn og því þurfti framlengingu til fá niðurstöðu í leikinn.

Óhætt er að segja að gestirnir frá Grindavík hafi átt framlenginguna og ekkert sem KR gat gert til að stoppa það. Niðurstaðan 83-90 sigur Grindavíkur í fyrsta leik tímabilsins.

Hjá Grindavík var David Azore atkvæðamestur með 31 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar. Ólafur Ólafsson var að vanda öflugur með 16 stig og 12 fráköst.

Jordan Semple var gríðarlega öflugur í liði KR og endaði með 24 stig og 14 fráköst. Dagur Kár Jónsson sneri svo aftur á völlinni eftir nokkra pásu og skilaði fínni frammistöðu, 17 stig, 5 fráköst og 8 stoðsendingar.

KR heimsækir sprækt lið Breiðabliks í næstu umferð en Grindavík fær íslandsmeistara Vals í heimsókn. Þar verður spennandi að sjá hvernig liðin fylgja leik kvöldsins eftir.

Tölfræði leiksins