Fjölnir lagði Breiðablik í kvöld í fjórðu umferð Subway deildar kvenna, 65-69. Fjölnir því unnið tvo leiki af fyrstu fjórum á meðan að Breiðablik er með aðeins einn sigur í fyrstu fjórum umferðunum.

Heimakonur í Blikum voru betri í upphafi leiks. Náðu að vera skrefinu á undan á upphafsmínútunum en misstu það niður undir lok fyrsta leikhlutans sem endaði 13-14 fyrir Fjölni. Undir lok fyrri hálfleiksins nær Fjölnir svo að skapa sér smá forystu og eru mest 7 stigum yfir í öðrum leikhlutanum, leikurinn er þó í járnum, staðan 30-29 þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik.

Í upphafi seinni hálfleiks var svo aftur komið að heimakonum að vera hænuskrefi á undan. Munurinn þó ekki mikill fyrir lokaleikhlutann, Blikar 2 stigum yfir, 47-45. Leikurinn svo stál í stál allt fram á lokasekúndurnar þar sem að Blikar fá tækifæri til þess að komast yfir, en allt kemur fyrir ekki. Að lokum eru það tvö víti frá Urté Slavickaite sem tryggja Fjölni sigur, 65-69.

Atkvæðamest fyrir Fjölni í leiknum var Urté Slavickaite með 20 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar. Fyrir Blika var það Isabella Ósk Sigurðardóttir sem dró vagninn með 11 stigum og 17 fráköstum.

Bæði lið eiga leik næst þann 19. október. Fjölnir tekur á móti Haukum í Dalhúsum á meðan að Breiðablik heimsækir Íslandsmeistara Njarðvíkur í Ljónagryfjuna.

Tölfræði leiks