Stjarnan lagði ÍR í Skógarseli í þriðju umferð Subway deildar karla í kvöld, 80-92. Eftir leikinn er Stjarnan því með tvo sigra og eitt tap á meðan að ÍR hefur tapað tveimur og unnið einn.

Fyrir leiks

Fyrir leikinn höfðu bæði lið unnið einn leik og tapað einum. Ljóst var þó að leikur kvöldsins yrði einhver brekka fyrir heimamenn, sem voru án Hákons Hjálmarssonar, Sigvalda Eggertssonar og þá var nýr bandarískur leikmaður þeirra Taylor Johns ekki kominn til liðsins.

Gangur leiks

Leikurinn var í miklu jafnvægi í upphafi. Liðin skiptust á snöggum áhlaupum og fór munurinn aldrei í meira en 4 stig í aðra hvora áttina í fyrsta leikhlutanum. Þegar hann var á enda voru það heimamenn sem voru 3 stigum yfir, 27-24. ÍR nær áfram að vera skrefinu á undan í öðrum leikhlutanum, þar sem forysta þeirra fer mest í 8 stig, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er staðan 46-41.

Stigahæsturir heimamanna í fyrri hálfleiknum voru Martin Passoja og Ragnar Örn Bragason, hvor um sig með 12 stig á meðan að Adama Darboe var kominn með 12 stig fyrir Stjörnuna.

Stjarnan náði að herða vörn sína í upphafi þess þriðja og opna seinni hálfleikinn á 10-1 áhlaupi, 47-51. Því forskoti ná þeir svo að hanga á meira og minna út leikhlutann, en staðan fyrir þann fjórða var 62-67. Gestirnir láta svo kné fylgja kviði á fyrstu mínútum fjórða leikhlutans, en þegar 7 mínútur eru eftir af leiknum er munurinn kominn í 18 stig, 62-80. Ekki er hægt að segja að ÍR hafi gert neina sérstaka atlögu að forystu Stjörnunnar á lokamínútunum þó þeir nái aðeins að laga stöðuna. Niðurstaðan 12 stiga sigur Stjörnunnar, 80-92.

Atkvæðamestir

Bestur í liði Stjörnunnar í kvöld var Adama Darboe með 22 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar. Fyrir ÍR var Martin Passoja atkvæðamestur með 26 stig og 10 stoðsendingar.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst þann 27. október. Stjarnan fær Njarðvík í heimsókn í MGH á meðan að ÍR heimsækir Grindavík.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Væntanlegt)