Breiðablik lagði Keflavík í kvöld í 4. umferð Subway deildar karla, 97-82. Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum, hvort um sig með þrjá sigra og eitt tap.

Fyrir leik

Keflavík hafði byrjað tímabilið nokkuð vel, unnið alla þrjá deildarleiki sína og voru komnir áfram í 16 liða úrslit bikarkeppninnar. Að sama skapi höfðu Blikar einnig byrjað ágætlega, unnið tvo leiki og tapað einum í deild, en voru slegnir út í 32 liða úrslitum bikarkeppninnar.

Nokkur skörð voru í leikmannahóp Keflavíkur í leiknum, þar sem Jaka Brodnik og Hörður Axel Vilhjálmsson voru báðir meiddir og í borgaralegum klæðum á bekk liðsins.

Gangur leiks

Heimamenn í Breiðablik byrjuðu leik kvöldsins ágætlega. Ná snemma 6 stiga forystu í stöðunni, 8-2. Keflavík rankar þá við sér og klárar síðustu 7 mínútur fyrsta fjórðungs með 5-22 áhlaupi og eru því 11 stigum yfir fyrir annan, 13-24. Heimamenn eru snöggir að vinna niður forystu Keflavíkur í upphafi annars leikhlutans. Blikar ganga enn á lagið undir loka hálfleiksins og eru 12 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 50-38. Mjög svo kaflaskiptur fyrri hálfleikur þar sem að Keflavík leiddi mest með 14 stigum á meðan að mest komst Breiðablik þessum 12 stigum á undan.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Everage Richardson með 14 stig á meðan að Igor Maric var kominn með 11 stig fyrir Keflavík.

Blikar bæta enn við forskot sitt í þriðja leikhlutanum. Þá var það ekki vegna annars 37 stiga leikhluta frá þeim, eins og í þeim öðrum. Heldur vegna þess að varnarlega náðu þeir að halda áfram að gera Keflavík lífið leitt. Gífurlega hraður leikur, líkt og leikir Breiðabliks eru venjulega, en þeir halda Keflvíkingum í 14 stigum í öðrum og leyfa svo 20 stig í þriðja leikhlutanum. Heimamenn í raun í algjörri kjörstöðu fyrir lokaleikhlutann, 16 stigum yfir, 74-58.

Blikar halda áfram að setja skotin sín og verjast frekar veiklulegu áhlaupi Keflavíkur í upphafi fjórða leikhlutans. Klára leikinn meira og minna á fyrstu fimm mínútum hans þar sem þeir leiða með 22 stigum þegar rétt tæpar fimm mínútur eru til leiksloka. Undir lokin tekst heimamönnum svo aðeins að hægja á leiknum án þess að það hafi of mikil áhrif á lokaniðurstöðuna, sem er gífurlega öruggur sigur 15 stiga sigur Blika 97-82.

Atkvæðamestir

Atkvæðamestur í liði Blika í kvöld var Everage Lee Richardson með 26 stig, 12 fráköst og 4 stoðsendingar. Fyrir Keflavík var Eric Ayala með 20 stig og 10 fráköst.

Hvað svo?

Næsti leikur Keflavíkur er komandi sunnudag 30. október gegn Fjölni í 16 liða úrslitum VÍS bikarkeppninnar. Næsti leikur Blika í Subway deildinni er eftir slétta viku gegn ÍR í Skógarseli.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Hafsteinn Snær)