Stjarnan lagði Val í fyrstu umferð Subway deildar karla í gærkvöldi, 76-84. Leikurinn var sá annar sem liðin léku sín á milli í þessari viku, en síðasta sunnudag vann Valur rimmu liðanna í meisturum meistara.

Hérna er meira um leikinn

Karfan ræddi við Arnar Guðjóns eftir þennan langþráða sigur Stjörnunnar gegn Val.

Arnar…ég dæmdi ykkur svolítið hart eftir leikinn á sunnudaginn…mér fannst þið vera skelfilegir…þú ert kannski bara sammála mér um það…?

Við vorum svolítið hægir í okkar aðgerðum og slakir varnarlega í fyrri hálfleik…en við vorum svo sem ekki frábærir í dag heldur…

…neinei…

…en við þurfum líka að vera þolinmóðir, þó við séum með einhverja 2 gaura sem eru að verða áttræðir samtals þá erum við líka með unga leikmenn – þeir eru að fá stærra hlutverk en áður eða komnir í nýtt lið og við þurfum sem félag að gefa þeim tíma til að vaxa og dafna í það. Mér fannst þeir gera vel í dag, talsvert betur en síðast og gáfu okkur aðeins meira og það breytir strax.

Nákvæmlega, það munar mikið um það. Þetta er svolítið skemmtileg blanda í liðinu, nokkrir reynslumiklir jálkar, 3 góðir erlendir leikmenn og svo allnokkrir ungir pungar eins og við vorum að ræða…og þeir voru allir að skila einhverju í dag, nema kannski Júlíus var ekki að finna sig.

Júlíus gerði samt vel varnarlega, og þeir komu allir með eitthvað að borðinu og það er eitthvað sem verður mikilvægt fyrir okkur í vetur, við ætlum að nota þessa stráka og þá þurfa þeir að standa undir því og mér fannst þeir taka skref fram á við frá því síðast.

Nákvæmlega. Ég var einmitt að hugsa þetta…þar sem ég er svo góður leikgreinandi…

…eins og þekkt er…!

…eins og þekkt er já…að Stjörnuliðið þarf einmitt smá tíma, það er talsvert lagt á herðar ungra manna í liðinu sem þurfa að standa sig ef Stjarnan ætlar að gera eitthvað í vetur?

Jájá! Það er bara skemmtilegt, það er bara frábært. Rétt eins og það eru líka ungir strákar í Val og Benóný var t.d. frábær í kvöld! Það er bara ógeðslega gaman þegar þessir strákar taka tækifærin og gera eitthvað við þau.

Akkúrat. Þú ferð varla að svara þessari spurningu neitandi…en ég gæti trúað því að þú sért nokkuð spenntur yfir þessu liði sem þú ert með í höndunum og ánægður með liðið?

Já, mér finnst ógeðslega gaman að mæta í vinnuna og það er ansi mikið gefandi fyrir það.

Ég er svo með skyndipróf fyrir þig hérna í síðustu spurningu! Hvað skoruðu núverandi eða fyrrverandi FG-ingar mörg stig í þessum leik?

Erum við þá að tala um menn sem útskrifuðust úr skólanum eða féllu eða?? En ég veit það ekki…hef ekki hugmynd!

Arnar féll illilega á skyndiprófinu en ég gaf honum upp svarið, heil 29 stig var það, og vorum við sammála um að það væri bara nokkuð gott.