Spánn varð í dag Evrópumeistari í körfubolta eftir sigu á Frakklandi í úrslitaleik.
Spánverjar höfðu yfirhöndina frá fyrstu mínútu í úrslitaleiknum. Leiddu með 9 stigum eftir fyrsta leikhluta, 23-14 og 10 stigum þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik, 47-37, en mest komst Spánn 21 stigi yfir í öðrum leikhlutanum. Í seinni hálfleiknum gerði Spánn svo það sem þurfti til þess að halda forystu sinni í tveggja stafa tölu og vinna leikinn að lokum nokkuð þægilega, 88-76.

Atkvæðamestur fyrir Spán í leiknum var Juancho Hernangomez með 27 stig, 5 fráköst, en honum næstur var Lorenzo Brown með 14 stig og 11 fráköst.
Fyrir Frakkland var Evan Fournier atkvæðamestur með 23 stig og 3 fráköst. Honum næstur var Thomas Heurtel með 16 stig og 7 stoðsendingar.
Spánverjar hafa í þrjú skipti áður orðið Evrópumeistarar, 2009, 2011 og 2015. Þá hafa þeir í 10 önnur skipti unnið annaðhvort silfur eða brons á mótinu, en þeir hafa í 32 skipti tekið þátt í lokamóti keppninnar.