Njarðvík og Haukar opnuðu vertíðina í viðureigninni meistari meistaranna í kvennaflokki í kvöld. Framlengja varð þennan slag liðanna sem einnig léku til úrslita í Subwaydeild kvenna á síðustu leiktíð. Haukar gerðu vel að koma leiknum í framlengingu en Njarðvíkingar reyndust þar eiga meira bensín á tanknum og kláruðu dæmið með risaleik frá Aliyah Collier sem splæsti í 45 stig og 29 fráköst.

Gangur leiksins

Njarðvíkingar byrjuðu betur með Raquel Laneiru í stuði fyrir utan þriggja stiga línuna. Staðan 25-16 eftir fyrsta leikhluta sem Haukar náðu að loka með flautuþrist. Í öðrum leikhluta hrukku Haukar í stuð þegar Sólrún Inga setti snemma tvo þrista og gaf þar með tóninn fyrir gestina. Haukar skoruðu 31 stig í öðrum leikhluta og leiddu 46-47 í hálfleik. Njarðvíkingar skoruðu flautukörfu í lok fyrri hálfleiks sem síðar var dæmd af þar sem leiktíminn var útrunninn.


Íslandsmeistararar Njarðvíkur þéttu vörnina í þriðja og skoruðu Haukar bara 11 stig gegn öflugri vörn grænna og staðan 67-58 fyrir Njarðvík eftir þrjá leikhluta. Í fjórða jöfnuðu Haukar leikinn á aðeins þremur mínútum 69-69. Njarðvíkingar voru oftast nokkrum stigum á undan en Kiera Robinson náði að jafna metin af miklu harðfylgi 78-78. Þristur frá Laviniu klikkaði hjá Njarðvík og því varð að framlengja.


Í framlengignunni kom Erna Hákonardóttir Njarðvík í 89-84 með þrist og lokatölur reyndust svo 94-87.

Vert að minnast á


Sólrún Inga átti flottar rispur í fyrri hálfleik, skoraði 14 stig og gaf 2 stoðsendingar. Laneiro var að hitta vel fyrir utan hjá Njarðvík með 4-8 í þristum eftir fyrri hálfleikinn. Besti maður vallarins var auðvitað Aliyah Collier, þvílík vinnsla á manneskjunni með 45 stig, 29 fráköst og 3 stoðsendingar. Stórkostleg frammistaða en kollegi hennar Raquel Laniero átti einnig afbragðs dag með 29 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar. Kiera Robinson enda stigahæst hjá Haukum með 27 stig, 9 fráköst og 9 stoðsendingar aðeins steinsnar frá huggulegri þrennu.

Bæði lið sýndu á köflum hörku spilamennsku og ljóst að þau hafa ekkert verið að drolla á undirbúningstímabilinu, ljómandi fín septembergæði hér á ferðinni og eins og flestum er kunnugt voru Helena Sverrisdóttir og Lovísa Henningsdóttir ekki með Haukum og munar um minna. Óskandi fyrir Hafnfirðinga að þær komist í gang sem fyrst.

Hvað svo

Nú er það deildin sem býður, Njarðvík hefur titilvörn sína á útivelli gegn Keflavík en Haukar byrja heima gegn ÍR

Tölfræði leiks

Myndasafn