Lokamót EuroBasket fór af stað síðastliðinn fimmtudag í Georgíu, Tékklandi, Ítalíu og Þýskalandi. Eins og í síðustu skipti er riðlakeppnin á ólíkum stöðum álfunnar áður en útsláttarkeppnin hefst, en þetta árið fer hún öll fram í Berlín í Þýskalandi.
Eitthvað hefur verið um óvænt úrslit það sem af er móti þó flest hafi þau verið eftir bókinni. Fram að útsláttarkeppninni sem hefst komandi laugardag 10. september eru 12 leikir á dagskrá sem alla er hægt að horfa á fyrir vægt gjald í gegnum Courtside 1891.
Á dagskrá í dag eru 6 leikir, þar sem tveir þeirra verða í beinni útsendingu á RÚV. Nú rétt fyrir hádegið mætast Tyrkland og Spánn áður en að Frakkland og Slóvenía eigast við seinni partinn. Spánn og Tyrkland hafa þegar tryggt sig áfram í útsláttakeppni mótsins, hvort um sig með þrjá sigra og eitt tap, en sigur í dag er þó mikilvægur fyrir bæði lið upp á stöðu í riðil og andstæðing í næstu umferð keppninnar. Sömu sögu er að segja af Frakklandi og Slóveníu, bæði örugg áfram, en til þess að fá lakari andstæðing í útsláttarkeppninni er betra fyrir liðin að vinna.
RÚV mun vera með beinar útsendingar frá þessum völdum leikjum riðlakeppninnar, en mun svo sýna alla 16 leiki útsláttakeppninnar í beinni útsendingu frá 10. til 18. september.
Leikir dagsins á RÚV:
07.09 – Tyrkland Spánn – 11:30 – RÚV
07.09 – Frakkland Slóvenía – 15:15 – RÚV 2