Grindavík lagði Fjölni í kvöld heima í HS Orku Höllinni í fyrstu umferð Subway deildar kvenna, 87-75.

Fyrir leik

Bæði lið höfðu farið í gegnum nokkrar breytingar yfir sumarið. Mestu munaði hjá Fjölni að Halldór Karl Þórsson hafði yfirgefið sem þjálfari félagsins og fyrrum þjálfari nýliða ÍR Kristjana Eir Jónsdóttir hafði tekið við. Hjá Grindavík bar hæst endurkoma Danielle Rodriguez, sem eftir hafa verið einn besti leikmaður deildarinnar á tíma sínum með KR og Stjörnunni, hafði ekki spilað keppnisleik í tvö ár.

Gangur leiks

Heimakonur í Grindavík byrjuðu leik kvöldsins mun betur, komast snemma í 10-2 og loka fyrsta leikhlutanum 12 stigum yfir, 27-15. Áfram heldur Grindavík að bæta við forystu sína í öðrum leikhlutanum og með laglegum flautuþrist frá Theu Ólafíu Lucic ná þær 21. stigs forystu áður en liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 59-38.

Óhætt er að segja að Danielle Rodriguez hafi mætt einbeitt í sinn fyrsta deildarleik síðan tímabilið 2020-21, en í fyrri hálfleiknum einum setti hún 28 stig fyrir Grindavík. Fyrir gestina úr Grafarvogi var Urté Slavickaite nánast sú eina með lífsmarki sóknarlega með 16 stig í fyrri hálfleiknum.

Í upphafi seinni hálfleiksins gerir Grindavík vel að halda í fenginn hlut þrátt fyrir að vörnin gegn þeirra besta sóknarleikmanni, Danielle, hafi lagast alveg helling hjá Fjölni. Enn nokkuð bil á milli liðanna eftir þrjá leikhluta, heimakonur 20 stigum yfir, 73-53. Í lokaleikhlutanum nær Fjölnir að setja saman áhlaup og minnka muninn mest niður í 9 stig þegar um mínúta er eftir af leiknum. Nær komast þær þó ekki og Grindavík sigrar að lokum með 12 stigum, 87-75.

Atkvæðamestar

Danielle Rodriguez var atkvæðamest í liði Grindavíkur í kvöld með 36 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar. Henni næst var Amanda Akalu með 9 stig og 15 fráköst.

Fyrir Fjölni var Urté Slavickaite atkvæðamest með 22 stig, 4 fráköst og Dagný Lísa Davíðsdóttir með 16 stig og 8 fráköst.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik komandi miðvikudag 28. september. Grindavík heimsækir Íslandsmeistara Njarðvíkur í Ljónagryfjuna á meðan að Fjölnir mætir nýliðum ÍR í Breiðholti.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Ingibergur Þór Jónasson)