Íslandsmeistarar Vals hafa fengið liðsstyrk fyrir komandi átök í Subway-deild karla, en félagið greindi frá því í dag að Aron Booker og Benóný Svanur Sigurðsson hafi samið við liðið.

Aron kemur til liðsins frá Blikum, en er þó öllum hnútum kunnugur í Origo-höllinni, þar sem hann lék áður frá 2019-2021. Áður lék hann í bandaríska háskólaboltanum, meðal annars með Oklahoma Sooners í BIG 12 deildinni, auk South Carolina Gamecocks í SEC deildinni.

Benóný, sem er tvítugur framherji, kemur til liðsins frá ÍR. Þar að auki hefur hann leikið með öllum yngri landsliðum Íslands.

Valsmenn hefja leik í Icelandic Glacial mótinu í kvöld þegar þeir mæta Blikum í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn.