Nýliðar ÍR tóku á móti Fjölni í annari umferð Subway deildar kvenna. Óhætt er að segja að nokkur eftirvænting hafi verið eftir leiknum þar sem nokkur saga er á milli þeirra eftir sumarið. Kristjana Jónsdóttir þjálfari Fjölnis þjálfaði nefnilega lið ÍR á síðustu leiktíð og kom liðinu í deild þeirra efstu áður en hún gerðist þjálfari Fjölnis í sumar.

Sögulínurnar því nokkrar fyrir leik en nýliðarnir komu öflugri til leiks, leiddu eftir fyrstu mínúturnar og var fyrsti leikhlutinn í járnum, staðan að honum loknum 16-12 ÍR í vil. Það átti þó eftir að breytast í öðrum leikhluta þar sem Fjölnir var með tögl og haldir, héldu ÍR í sex stigum í þeim leikhluta og náðu sér í ágætis forystu. Staðan í hálfleik, 31-22 fyrir Fjölni.

Forystunni héldu gestirnir allt til loka en ÍR ingar náðu að minnka muninn verulega og gáfust aldrei upp. Sigur Fjölnis var aldrei í stórhættu þrátt fyrir það en óhætt er að segja að deildarmeistararnir hafi þurft að hafa rækilega fyrir þessum stigum. Lokastaðan 50-58 fyrir Fjölni sem er komið á blað.

Simone Sill var öflugust fyrir lið Fjölnis, endaði með 17 stig, 16 fráköst og 10 fiskaðar villur. Stigahæst var þó Urté Slavickaite með 20 stig. Reynsluboltinn og aðstoðarþjálfarinn Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var að vanda drjúg og endaði með 8 stig og 15 fráköst.

Hjá heimakonum var Greeta Uprus frábær með 21 stig og 8 fráköst. Nína Jenný Kristjánsdóttir var einnig öflug með 10 stig og 10 fráköst.

Mynd: Fjölnir