Ísland er enn í kjörstöðu til þess að tryggja sér farseðil á lokamót heimsmeistaramótsins 2023 eftir sterkan sigur á Úkraínu í Ólafssal í gærkvöldi. Með sigrinum færðist Ísland aftur upp í þriðja sæti L riðils. Eins og sjá má hér fyrir neðan er lið Georgíu þó ekki langt undan, en aðeins þrjú lið munu komast áfram úr riðlinum.

Ásamt sigri Íslands á Úkraínu vann Ítalía lið Georgíu í gær og þá bar Spánn sigurorð af Hollandi. Með aðeins fjóra leiki eftir hjá öllum liðum má því segja að Holland sé komið úr leik og að Úkraína þurfi kraftaverk til þess að koma sér áfram.

Ísland á raunhæfa möguleika á að komast áfram á lokamótið, en þarf til þess helst að vinna annan eða báða leikina sem liðið á eftir gegn Georgíu. Samkvæmt því hvernig liðunum hefur gengið ætti það að vera krefjandi, en ekki óvinnandi verk. Georgía eru sem stendur fjórum sætum fyrir ofan Ísland á Evrópulista FIBA, í 18. sætinu á meðan ísland er í því 22. Þeir hafa þó verið mikil ólíkindatól í þessari undankeppni, lögðu Spán með 6 stigum í júlí þremur dögum eftir að hafa tapað fyrir Úkraínu með 13 stigum.

Hér fyrir neðan má sjá þá leiki sem eftir eru hjá Íslandi.

Ísland Georgía – 11. nóvember

Úkraína Ísland – 14. nóvember

Ísland Spánn – 23. febrúar

Georgía Ísland – 26. febrúar

Hérna er heimasíða mótsins