KR hefur endurnýjað samninga sína við fjóra leikmenn fyrir komandi tímabil í fyrstu deild kvenna.
Hulda Ósk Bergsteinsdóttir, Perla Jóhannsdóttir, Gunnhildur Bára Atladóttir og Fanney Ragnarsdóttir sömdu allar við liðið til eins árs og verða því allavegana með liðinu út næsta tímabil. Perla og Bára eru uppaldar í KR og hafa verið burðarásar í meistaraflokki kvenna sl. ár. Hulda kom til KR frá Fjölni fyrir síðasta tímabil en hún var valin í lið ársins í 1. deildinni í fyrra. Fanney gekk einnig til liðs við KR í fyrra frá Fjölni.
Samkvæmt Herði Unnsteinssyni þjálfara liðsins:
,,Ég er himinlifandi að hafa gengið frá samningi við stelpurnar, þær eru hryggjarstykkið í liðinu okkar. Þær hafa verið gjörsamlega frábærar á æfingum í sumar og ég býst við þeim öllum í lykilhlutverki hjá okkur í vetur. Það er ekkert launungamál að við stefnum upp um deild í vetur og þær eru ekki bara mikilvægar í þeirri vegferð, heldur einnig á næstu árum þegar við höfum komið KR aftur á sinn stað í efstu deild.”