Undir 16 ára drengjalið Íslands mátti þola tap í dag fyrir Finnlandi í lokaleik sínum á Norðurlandamótinu í Kisakallio, 93-83. Liðið hafnaði því í þriðja sæti mótsins með þrjá sigra og tvö töp, en Svíþjóð urðu Norðurlandameistarar og í öðru sæti var Finnland.

Lokastaða NM 2022

Gangur leiks

Leikurinn er nokkuð jafn í upphafi, en heimadrengir í Finnlandi ná þó að vera skrefinu á undan eftir einn leikhluta, 26-23. Annar leikhlutinn var svo nokkuð erfiður fyrir Ísland, tapa honum með 11 stigum og eru því 14 stigum undir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 51-37.

Drengirnir ná að minnka forystu Finna í upphafi seinni hálfleiksins og eru aðeins 8 stigum undir þegar að þrír leikhlutar eru á enda, 72-64. Ísland gerir ágætlega að halda sér inni í leiknum í lokaleikhlutanum, en aldrei þannig leikurinn verði neitt æsispennandi undir lokin. Niðurstaðan að lokum 10 stiga sigur Finnlands, 93-83.

Atkvæðamestir

Viktor Jónas Lúðvíksson var atkvæðamestur fyrir Ísland í dag með 15 stig, 9 fráköst, 6 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Honum næstur var Magnús Dagur Svansson með 16 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar.

Kjarninn

Drengirnir gerðu nokkuð vel á þessu móti og eiga án nokkurs vafa framtíðina fyrir sér. Með smá lukku hefðu þeir hæglega getað endað í efsta sætinu, þar sem ekkert lið á mótinu leit út fyrir að vera eitthvað mikið betra en þeir. Frekar jafnir tapleikir á móti Svíþjóð og Finnlandi samt staðreynd og þriðja sætið niðurstaðan.

Birkir Hrafn Eyþórsson var kosinn í úrvalslið mótsins að leik loknum, en hann var frábær fyrir liðið í leikjunum fimm. Skilaði 20 stigum, 5 fráköstum og 2 stoðsendingum að meðaltali í leik.

Tölfræði leiks

Myndasafn