Undir 20 ára kvennalið Íslands lagði Kósovó í dag í fyrsta leik sínum í úrslitum um 9.-18. sæti á Evrópumótinu í Georgíu.

Ísland byrjaði leik dagsins betur, leiddu með 4 stigum eftir fyrsta leikhluta 12-16. Undir lok fyrri hálfleiksins ná þær svo góðum tökum á leiknum og fara með þægilega 18 stiga forystu til búningsherbergja í hálfleik, 24-42.

Því forskoti ná þær svo að hanga á inn í seinni hálfleikinn. Skilja jafnar við Kósovó í þriðja leikhlutanum og eru enn 18 stigum yfir fyrir þann fjórða, 35-53. Í lokaleikhlutanum gera þær svo nóg til þess að sigla að lokum mjög svo öruggum 21 stigs sigri í höfn, 44-65.

Atkvæðamest fyrir Ísland í leiknum var Diljá Lárusdóttir með 21 stig. Henni næst var Hulda Ólafsdóttir með 15 stig og 8 fráköst.

Næsti leikur Íslands í úrslitakeppninni um sæti 9-18 er kl. 14:30 á morgun gegn Króatíu.

Tölfræði leiks