Hér fyrir neðan eru nokkur af þeim atriðum sem Körfunni hafa borist til eyrna á síðustu dögum er varða leikmenn, þjálfara og félög á Íslandi. Tekið skal fram að hér er um að ræða óstaðfestar fregnir og því ber að taka þeim sem slíkum.

 • Heyrst hefur að verði landsliðsmaðurinn Ægir Þór Steinarsson á Íslandi á næsta tímabili komi fimm félög til greina, Þór, KR, Valur, Stjarnan og Njarðvík

 • Þá hefur heyrst að Pavel Ermolinski sé líkt og svo oft áður, líklegur til þess að hætta. Fari svo að hann haldi áfram hefur hann verið orðaður við annað tímabil hjá Val, flutninga til Tindastóls eða til Stjörnunnar í Garðabæ

 • Þórir Guðmundur Þorbjarnarson mun einnig vera að skoða sín mál, fari svo að gott tilboð komi að utan herma fregnir að hann muni hoppa á það, annars stendur val hans milli KR og Vals hér á landi

 • Isabella Ósk Sigurðardóttir leikmaður South Adelaide í Ástralíu er orðuð við bæði Fjölnir og Keflavík fyrir komandi tímabil í Subway deild kvenna

 • Annar leikmaður South Adelaide í Ástralíu, fyrrum leikmaður Hauka Jeremy Smith er einnig orðaður við Fjölni

 • Þá hefur heyrst að leikmenn Vals þeir Benedikt Blöndal og Ástþór Atli Svalason muni mögulega halda áfram með liðinu á næsta tímabili, en báðir höfðu verið orðaðir annað á síðustu vikum og dögum

 • Þá mun Gerald Robinson vera talinn líklegur til þess að taka annað tímabil með Selfoss í fyrstu deild karla

 • Heyrst hefur að bæði ÍR í Subway deildinni og Sindri í þeirri fyrstu séu á eftir fyrrum leikmanni Hauka Jose Medina

 • Gerald Robinson fyrrum leikmaður Selfoss er sagður líklegur í Breiðablik fyrir komandi tímabil

 • Þá er sagt að Starri Halldórsson muni ekki taka annað tímabil með Selfoss og sé að leita sér að liði á Höfuðborgarsvæðinu fyrir næsta tímabil

 • Þá er sagt að Valur sé á höttunum eftir fyrrum leikmanni Þórs Larry Thomas

 • Hinn efnilegi Almar Orri Atlason er sagður hafa hafnað gulli og grænum skógum Keflavíkur og líklegt þykir nú að hann taki annað tímabil með KR

 • Þjálfaraleit Tindastóls í fyrstu deild kvenna tók enda á dögunum er liðið réð hinn sænska Patrick Ryan, orðið á götunni er að liðið ætli sér að fara upp í Subway deild kvenna og verði ekkert til sparað til þess að ná því markmiði og að jafnvel verði bætt við erlendum atvinnumönnum

Orðið á götunni er einungis til gamans og ef fólk hefur ábendingar um slúður skal hafa samband á karfan@karfan.is