Undir 20 ára karlalið Íslands leikur þessa dagana á Evrópumóti í Georgíu.

Liðinu hefur gengið afar vel til þessa, unnið þrjá leiki og aðeins tapað einum í riðlakeppninni, en á morgun leika þeir í átta liða úrslitum mótsins gegn Svíþjóð kl. 15:00.

Að öðrum ólöstuðum hefur leikmaður KR Þorvaldur Orri Árnason verið besti leikmaður liðsins, skilað 18 stigum, 6 fráköstum og 5 stoðsendingum að meðaltali í leikjunum fjórum.

Frammistöðu hans hafa fleiri tekið eftir, þar sem FIBA setur hann í níu leikmanna úrvalslið riðlakeppninnar. Þar er hann með Emil Stoilov frá Búlgaríu, Joonas Riismaa frá Eistlandi, Eemi Luukonen frá Finnlandi, Ricards Vanags frá Lettlandi, Yannick Kraag frá Hollandi, Amar Hot frá Makedóníu, Mihailo Boskovic frá Serbíu og Bo Klintman frá Svíþjóð.

Berjast leikmennirnir níu í netkosningu um titilinn verðmætasti maður mótsins, en hægt er að kjósa Þorvald Orra með hlekknum hér fyrir neðan.

Kosning FIBA á verðmætasta leikmanni Evrópumótsins í Georgíu