Mikið hefur verið rætt og ritað um hver það muni vera sem taki við silfurliði Subway deildar karla eftir að Baldur Þór Ragnarsson sagði starfi sínu lausu og hélt á vit ævintýrana til Þýskalands fyrr í mánuðinum. Á annan tug þjálfara hafa verið nefndir sem mögulegir arftakar Baldurs, en nú er ekki talið líklegt að neinn þeirra þjálfara sem nefndir hafa verið séu að taka við liðinu, þar sem að þeir séu við það að semja við Vladimir Anzulović.

Vladimir er 44 ára gamall króatískur fyrrum leikmaður sem síðast þjálfaði Zadar í heimalandinu, en liðið hafnaði í þriðja sæti á síðustu leiktíð. Eftir að hafa klárað 14 ára feril sem atvinnumaður fór Vladimir beint í þjálfun árið 2010 og hefur allar götur síðan verið bæði aðstoðar og aðalþjálfari hjá liðum í Króatíu og Slóveníu. Sem leikmaður varð hann króatískur bikarmeistari árið 2007 og sem þjálfari vann hann slóvenska bikarinn árið 2016.