Austin M. Bracey mun leika með liði Ármanns í 1. deild karla á næstu leiktíð. Þetta tilkynnti félagið í kvöld. Tilkynningu Ármanns má finna hér að neðan:

Ármann hefur náð samningum við hinn reynslumikla leikmann Austin Magnús Bracey að leika með liðinu á næstu leiktíð. 

Það þarf vart að kynna þennan öfluga leikmann. Austin er 32. ára bakvörður sem leikið hefur á Íslandi frá 2012. Hann hefur leikið á Íslandi með Val, Haukum, Snæfelli og Hetti auk stuttrar dvalar á Selfossi. Hann hefur því leikið um 250 leiki á Íslandi, langflesta þeirra í efstu deild. 

Á ferli sínum á Íslandi er hann með 41,5% þriggja stiga skotnýtingu. Á síðustu leiktíð lék hann nokkra leiki með Selfossi en var þar áður með liði Hauka í Dominos deildinni. 

Austin ætti því að styrkja nýliða Ármanns í 1. deildinni. Hann mun auk þess þjálfa yngri flokka félagsins.

Við undirritunina sagði Ólafur Þór Jónsson þjálfari liðsins: „Bracey er gríðarlegur liðsstyrkur fyrir okkar lið. Við þekkjum vel til Austin sem býr og starfar í hverfinu og er flott fyrirmynd fyrir unga iðkenndur. Hann kemur með gæði inní hópinn og mikla reynslu. Auk þess að vera frábær leikmaður fellur hann vel inní hópinn. Það eru mikil gleðitíðindi að Austin ákveði að taka slaginn með okkur á komandi leiktíð.“ 

Liðið hefur undirbúning sinn á næstu dögum en fyrsti leikur liðsins er heimaleikur gegn Skallagrím þann 23. september næstkomandi. 

Frekari fregna er að vænta af leikmannamálum á næstu dögum.