Ármenningar eru á fullu þessa dagana að safna liði fyrir komandi átök í 1. deild karla þar sem liðið eru nýliðar. Í dag var tilkynnt um sjö leikmenn sem staðfestu áframhaldandi veru sína í Ármanni.

Tilkynningu Ármanns má finna hér að neðan:

Það var mikill gleðidagur í Kennó í gær þegar átta leikmenn skrifuðu undir samninga um að leika með liðinu á komandi leiktíð. Eins og við tilkynntum í gær hefur Austin Bracey ákveðið að leika með liðinu en ásamt honum endursömdu sjö leikmenn við félagið.

Sjö leikmenn sem léku með liðinu sem fór ósigrað í gegnum 2. deildina staðfestu áframhaldandi veru sína í Kennó. Þetta eru þeir Illugi Steingrímsson, Oddur Birnir Pétursson, Guðjón Hlynur Sigurðarson, Kristófer Már Gíslason, Gunnar Örn Ómarsson, Júlíus Þór Árnason og Halldór Fjalar Helgason. Allir leika þeir stórt hlutverk í þessum sterka hópi leikmanna. 

Það eru gríðarlega góðar fréttir að þessir leikmenn haldi áfram að leika með okkur í  1. deildinni á næstu leiktíð. Þar eru á ferðinni öflugir leikmenn og frábærar fyrirmyndir. 

Liðið hefur undirbúning sinn á næstu dögum en fyrsti leikur liðsins er heimaleikur gegn Skallagrím þann 23. september næstkomandi. 

Frekari fregna er að vænta af leikmannamálum á næstu dögum.