KR hefur samkvæmt heimildum Körfunnar samið við Violet Morrow fyrir komandi átök í fyrstu deild kvenna.

Violet er 178 cm bandarískur bakvörður sem kemur til liðsins frá Aþenu í sömu deild, en á síðasta tímabili skilaði hún 29 stigum, 15 fráköstum og 2 stoðsendingum að meðaltali í 18 leikjum.

Violet hafði áður en hún kom til Aþenu einnig leikið sjö leiki fyrir Breiðablik tímabilið 2019-20, en þá var hún með 22 stig og 12 fráköst að meðaltali.

KR hafnaði í þriðja sæti í deildinni á síðasta tímabili og voru slegnar út í undanúrslitum úrslitakeppni deildarinnar í oddaleik gegn ÍR, sem að seinna unnu svo keppnina og leika í Subway deildinni á næsta tímabili.