Framherji Davidson og íslenska landsliðsins Styrmir Snær Þrastarson mun leika áfram með Davidson í bandaríska háskólaboltanum á komandi tímabili. Staðfestir Styrmir þetta í samtali við Körfuna fyrr í dag.

Staðfesti Styrmir einnig að sá orðrómur um að hann hafi verið að íhuga að gerast atvinnumaður á Íslandi á komandi tímabili hafi verið á rökum reistur, en á endanum hafi hann þó ákveðið að halda aftur vestur um haf og halda áfram með Davidson skólanum.

Á sínu fyrsta ári með Davidson á nýliðnu tímabili fékk nýliðinn Styrmir Snær fá tækifæri til að sýna listir sínar á parketinu, en hann var þó nánast alltaf í hóp/liði Davidson sem skilaði nokkuð sterku tímabili, unnu Atlantic 10 deildina og rétt duttu út á móti stórliði Michigan State í fyrstu umferð Marsfársins, 74-73. Styrmir kom við sögu í 12 leikjum Davidson á nýliðnu tímabili, þar sem hans besta frammistaða var gegn Johnson & Wales Wildcats þann 22. desember, 12 stig, 2 fráköst og 3 stoðsendingar á 18 mínútum spiluðum.