Álftanes hefur samið við Snjólf Marel Stefánsson um að leika með liðinu á komandi tímabili í fyrstu deild karla.

Snjólfur kemur til liðsins frá uppeldisfélagi sínu í Njarðvík, en sökum meiðsla náði hann lítið að beita sér fyrir deildarmeistara Subway deildarinnar á síðasta tímabili. Árið á undan var hann í bandaríska háskólaboltanum með Black Hills State Yellow Jackets.

Snjólfur hefur áður leikið í fyrstu deildinni, en tímabilið 2018-19 var hann einn lykilmanna Selfoss í deildinni með 15 stig, 8 fráköst og stolinn bolta að meðaltali í leik.

Snjólfur hefur einnig verið hluti af öllum yngri landsliðum Íslands á síðustu árum.

Tilkynning:

Snjólfur Marel Stefánsson er nýjasti liðsmaður Álftnesinga eftir að hafa skrifað undir samning við félagið. Snjólfur kemur frá Njarðvík, hvar hans körfuboltauppeldi fór að mestu fram en Snjólfur er ættaður af austurlandi eins og svo margir sem tengjast körfuboltanum á nesinu.


Snjólfur hefur heldur betur sannað sig í 1. deildinni. Tímabilið 2018 – 2019 var hann á venslasamning hjá Selfyssingum og átti þá glimrandi tímabil. Hann skoraði 15,2 stig, tók 8,2 fráköst og stal 1,2 boltum að meðaltali í leik. Hann var valinn í úrvalslið 1. deildar það tímabil.


Snjólfur hélt til Bandaríkjanna og lék í háskólaboltanum þar í landi í eitt tímabil. Hann kom svo heim og samdi aftur við uppeldisfélag sitt Njarðvík. Síðasta tímabil gekk þó ekki nægilega vel hjá Snjólfi, hann meiddist á miðju tímabili og missti úr um þrjá mánuði. Þegar hann sneri aftur var farið að líða að úrslitakeppni og breyttist hlutverk hans við meiðslin. Hann lék átta leiki fyrir Njarðvík og var í fínu hlutverki í byrjun tímabils, fyrir meiðslin.


Snjólfur er margreyndur með yngri landsliðum Íslands, en hann var lykilmaður í u18 og u20 ára landsliðinu.


Hann þykir vera einstaklega góður varnarmaður og getur dekkað leikmenn í mismunandi leikstöðum. Hann er orkumikill og sterkur frákastari, gefur liðum sínum oft og iðulega fleiri tækifæri í sókn með því að næla í sóknarfráköst upp úr engu. Hann er sömuleiðis góður skorari, en hann var með 57% skotnýtingu þegar hann lék síðast í 1. deild.


„Ég hef lengi fylgst með Snjólfi og finnst hann virkilega góður leikmaður. Hann hefur marga eiginleika sem er erfitt að kenna. Ég hlakka mjög til þess að sjá hann í bláu og ég er viss um að áhorfendur í Forsetahöllinni muni njóta þess að fylgjast með honum á parketinu,“ segir Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness.


Snjólfur er annar leikmaðurinn sem semur við Álftanes í sumar, en fyrir skemmstu var það tilkynnt að Pálmi Geir Jónsson væri kominn til liðs við félagið. Báðir þessir leikmenn eiga það sameiginlegt að koma úr liðum sem unnu titla á síðustu leiktíð. Njarðvíkingar urðu bikarmeistarar fyrir síðustu leiktíð og unnu deildarmeistaratitilinn og Pálmi Geir varð Íslandsmeistari. Báðir leikmenn eiga það líka sameiginlegt að hafa verið með allra bestu leikmönnum 1. deildar þegar þeir hafa leikið í deildinni. Óhætt er að segja að spenna ríki fyrir því að fá þessa tvo leikmenn á nesið.