Vefsíðan Feykir.is greinir frá því fyrr í kvöld að Tindastóll hafi náð samkomulagi við lykilleikmenn sína fyrir komandi leiktíð í Subway deild karla.

Þetta eru þeir Sigurður Gunnar Þorsteinsson, Pétur Rúnar Birgisson og Sigtryggur Arnar Björnsson sem leika með sauðkrækingum á komandi leiktíð. Pétur Rúnar Birgisson skrifaði undir þriggja ára samning, Sigurður Þorsteinsson skrifaði undir tveggja ára samning og Sigtryggur Arnar Björnsson skrifaði undir eins árs samning. Líkt og við greindum frá fyrr í kvöld varð líka ljóst í kvöld að Baldur Þór Ragnarsson mun stýra liðinu áfram.

Tindastólsmenn ætla sér samkvæmt heimildum að spila á svipuðu liði og komst í úrslitaeinvígið fyrir stuttu. Eftirminnilegt tímabil er að baki hjá Tindastól en eftir skrambi brösugt gengi framan af vetri sneri liðið algjörlega skútunni við og komust alla leið í oddaleik í lokaúrslitum Subway deildarinnar.