Líkt og Karfan greindi frá fyrr í dag er ljóst að Sverrir Þór Sverrisson stýrir liði Grindavíkur ekki áfram á næstu leiktíð. Í kvöld var svo slegið á allar sögusagnir þegar Grindavík tilkynnti að Jóhann Þór Ólafsson hefði verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla á næstu leiktíð.

Jóhann þekkja flestir körfuboltaáhugamenn en hann stýrði liði Grindavíkur árin 2015-2019 en hefur nú snúið aftur eftir smá pásu frá aðalþjálfarastarfinu. Til gamans má geta að Jóhann er bróðir Ólafs Ólafssonar leikmanns liðsins og Þorleifs Ólafssonar þjálfara meistaraflokks kvenna, það má því með sanni segja að Ólafssynir hafi tekið yfir félagið.

Jóhann Þór var aðstoðarþjálfari hjá Grindavík í vetur og er öllum hnútum kunnugur í starfi félagsins. Hann var einnig aðstoðarþjálfari félagsins árið 2013 þegar félagið hampaði síðast Íslandsmeistaratitlinum og bikartitlinum árið 2014.

Í tilkynningu Grindavíkur segir: „Við erum mjög glöð að fá Jóhann Þór í starf þjálfara liðsins og væntum mikils af honum. Jóhann er mjög fær þjálfari og það eru frábærar fréttir að hann sé að snúa aftur í þjálfun af fullum krafti,“ segir Ingibergur Þór Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur.

„Það er spennandi vetur framundan í Grindavík. Við erum að færa okkur á nýjan og glæsilegan keppnisvöll og það ríkir mikil eftirvænting fyrir því að hefjast handa,“ segir Jóhann Þór. Ekki er búið að ganga frá því hver verður aðstoðarmaður Jóhanns á komandi tímabili en það verður tilkynnt í náinni framtíð.