Íslenska U16 landslið drengja lagði sterkt lið Danmerkur í hraðskreiðum og skemmtilegum leik 75-61. Á morgun taka þeir svo á móti stóru liði Eista og stefna á að haldast ósigraðir á mótinu.

Gangur Leiksins

Hraði danska liðsins og segulkennd vörn þess íslenska skapaði mjög spennandi andrúmsloft frá fyrstu mínútu leiksins og liðin skiptust á körfum. Ísland komst í 7 stiga forskot áður en Dönum tókst að minnka muninn í aðeins eitt stig og staðan eftir fyrsta leikhluta 17-16.

Ísland keyrði sig fljótt af stað og var við miðjan leikhlutann komið 5 stigum yfir eftir ítrekuð mistök Dana. Eftir að kasta boltanum úr innkasti yfir allan völlinn og útaf hinumegin tóku Danir leikhlé. Þrátt fyrir að komast í ótakmörkuð hraðaupphlaup þá hlýddi boltinn Dönunum lítið og þurfti oft sóknarfráköst til að klára sóknir. Greinilegt er að það stefnir í algeran spennutrylli, staðan 34-31 í hálfleik fyrir Íslandi.

Eitthvað höfðu íslensku drengirnir fengið sér að éta í hálfleik því þeir komu brjálaðir úr klefanum. Þeir gerður sér lítið fyrir og skoruðu 12 stig gegn 4 og munurinn 10 stig við miðbik leikhlutans. Þessi stigasprengja byggðist upp af frábærum varnarleik og óendandi orku frá Viktor og Lars. Þrátt fyrir að missa dampinn í smástund, héldu Íslendingarnir áfram sömu orku og ákafa og enduðu leikhlutann 56-48.

Danir byrjuðu síðasta leikhlutann af krafti og minnkuðu muninn í 3 stig þegar um 5 mínútur voru eftir. Þristur frá Tristan Mána setti hlutina aftur af stað fyrir Íslendinga og skoruðu þeir 9 stig í röð til að komast í 12 stiga forskot, 69-57. Enn héldu hittnisraunir Danmerkur áfram þar sem þeir klikkuðu á þremur galopnum sniðskotum í röð. Á lokamínútunni fór verulega að sjást til þreytunnar á Dönunum þar sem þeir misstu boltann oft frá sér og brutu þreytulega af sér. Ísland vann að lokum 75-61.

Atkvæðamestir

Birkir Hrafn Eyþórsson átti hörkuleik þar sem hann skoraði 20 stig og var með 78% skotnýtingu, að auki við 6 fráköst og 2 stolna bolta. Viktor Jónas Lúðvíksson átti aftur góðan leik með 10 stig, 9 fráköst og 3 stolna.

Áberandi tölfræði

Hittni Danmerkur var arfaslök. Aðeins 29% skotnýting, þar af 0/16 þriggja stiga.

Hvað er næst?

Liðið keppir gegn Eistlandi á morgun kl 10:30 að íslenskum tíma.

Tölfræði leiks

Myndir úr leik