U16 landslið drengja sigraði Noreg 91-77 í fyrsta leik liðsins á Norðurlandamótinu. Íslenska liðið sýndi mikla varnartilburði og áttu Norðmenn erfitt með að halda á boltanum. Liðið leikur svo gegn Danmörku á morgun.

Gangur leiks

Áður en leikurinn hófst voru að venju leiknir þjóðsöngvar liðanna, en eitthvað virtist klikka í hljóðbúnaði og varð tveggja mínútna þögn söngvanna á milli.

Íslensku drengirnir byrjuðu leikinn gegn norskum jafnöldrum sínum af krafti (eflaust fullir af orku eftir langa þjóðsöngvabið) og héldu góðu forskoti í fyrsta leikhluta. Þrátt fyrir óíþróttamannslega villu dæmda gegn Íslendingunum, héldu þeir áfram að spila með sömu orku og unnu fyrsta leikhluta 25-10 Snerpa og gáfulega leikin vörn virtist stýra leikhlutanum þar sem Ísland var með 8 stolna bolta í fyrsta leikhluta að auki við 2 varin skot.

Í öðrum leikhluta virtist sem Íslendingarnir væru komnir einu skrefi á undan sjálfum sér, og tilfinningin var sú að þeir ætluðu sér að spila hraðar en þeir réðu við. Þeir leyfðu þó ekki Norðmönnum að nýta sér þau mistök sem Ísland gerði og töluvert jafnari leikhlutinn endaði 18-18. Lokatölur í hálfleikvoru 43-28.

Þriðji leikhlutinn sprakk af stað þar sem Norðmenn áttu upphafsinnkastið. Innkastinu var stolið af Birgi Leó sem skilaði boltanum á Lars sem kláraði svo auðvelt sniðskot og aðeins 8 sekúndur liðnar af leikhlutanum. Leikhutinn gekk meira útá hratt spil frekar en vörn hjá báðum liðum og staðan 72-52 fyrir lokaleikhlutann.

Slök byrjun hjá Íslandi í fjórða leikhluta, þar sem Noregur skoraði 13 stig gegn 4, leiddi til leikhlés þegar ekki voru búnar 3 mínútur. Ekki batnaði það þar sem Íslenska liðið byrjaði á því að fá á sig tæknivillu fyrir að hafa of marga leikmenn á vellinum, og skrefuðu síðan í næstu sókn á eftir. Norðmenn voru aðeins 8 stigum frá því að ná Íslendingunum þegar 4 mínútur voru eftir, en veggjarlík vörn Íslands sá til þess að nær komust Norðmenn ekki. Ísland vann Noreg 91-77

Kjarni leiksins

Frá fyrstu mínútu mátti sjá að megináhersla íslenska liðsins var vörn. Leikmenn Íslands voru eins og þjófóttar mýflugur og enduðu leikinn með 21 stolinn bolta og neyddu Norðmenn til að tapa boltanum 35 sinnum.

Atkvæðamestir

Viktor Lúðvíksson átti frábæran leik sem spilaðist langmest í teignum, með 17 stig, 70% skotnýtingu, 8 fráköst (4 sóknar & 4 varnar) og 4 blokk. Auk þess hamraði hann niður boltanum með stórri troðslu. Tristan Morthens átti einnig góðan leik varnarlega þar sem hann stal boltanum 5 sinnum.

Hvað svo?

U16 lið drengja leikur svo gegn Danmörku á morgun kl 15:15 að íslenskum tíma

Tölfræði leiks

Myndasafn úr leiknum