Lokamót Evrópukeppni lögregreglulandsliða fer fram þessa dagana í Limoges, Frakklandi.
Tveir riðlar eru á mótinu þar sem að í A riðli eru með Íslandi lið Frakklands, Litháen og Lúxemborg. Í hinum riðlinum, B, eru Þýskaland, Grikkland, Belgía og Ítalía.

Lið Íslands skipað lögreglumönnum m.a. frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum, Reykjavík, Suðurlandi, Norðurlandi vestra, Vesturlandi og Ríkislögreglustjóra. Þjálfarar eru þeir Jón Þór Eyþórsson, Stykkishólmi og Ólafur Örvar Ólafsson, Keflavík.

Hér fyrir neðan má sjá dagbókarfærslu annars dagsins frá þjálfurum liðsins:

22.06.2022

Var hundskammaður í gær fyrir að gleyma að minnast á að Lögreglustjórinn á Vesturlandi eigi líka einn liðsmann í liðinu, það er hér með lagfært.

Dagurinn hófst á leik Grikkja og Belga, Grikkirnir greinilega brjálaðir yfir því að hafa tapað fyrir Þjóðverjum daginn áður og slátruðu því Belgum, lokatölur 101 – 54. Næst léku Þjóðverjar við Ítali, aldrei spurning hvernig sá leikur færi, Ítalir einungis með 10 leikmenn sem er skammarlegt, leikurinn endaði 100 – 38, Þjóðverjum í vil.

Þá var röðin komin að Íslandi, spilað var gegn heimamönnum, Frakklandi. Leikurinn var hnífjafn fyrstu mínúturnar, Frakkar pressuðu allan völlinn og við kærulausir á sama tíma. Egill Egilsson sá þó til þess að við vorum með smá forskot eftir fyrsta leikhluta. Þessi drengur er ekkert eðlilega hittinn fyrir utan þriggja stiga línuna. Hann setti niður 5 þrista í heildina og endaði með 23 stig. Eftir að hafa byggt upp gott forskot fyrir hálfleik þar sem Hannes Ingi Másson og Arnar Smári Bjarnason úr Borgarnesi sáu að mestu leyti um stigaskorun þá var haldið inn í klefa. Arnar smellti þremur þristum í grillið á frökkunum með stuttu millibili. Arnar hélt að hann væri orðinn Steph Curry og reyndi við þann fjórða rétt kominn inn fyrir miðju en því miður þá dansaði boltinn á hringnum. Þjálfararnir ítrekuðu fyrir leikmönnum að halda áfram, ekki gefa frökkunum einhverja von í byrjun seinni hálfleiks.

Þessir snillingar voru ekkert að hlusta á þjálfarana, frakkar skora fyrstu stigin í þriðja leikhluta og byrja að saxa á forskotið. Þá kom Magnús Superman Pálsson með sína grimmd og yfirvegun, setti nokkur stig og jarðaði frakkana í vörninni. Greinilegt að Haukur Helgi Pálsson fékk ekki alveg alla körfuboltahæfileikana frá foreldrum þeirra bræðra. Fór svo að tiltölulega öruggur sigur vannst og sæti í undanúrslitum tryggt. Besti árangur Íslands hingað til var fimmta sæti og því búið að toppa það. Eins og fyrr segir var Egill með 23 stig, Hannes Ingi með 13 stig og hitti kappinn mun betur í þessum leik heldur en daginn áður og Arnar Smári með 19 stig.

Ísland setti niður 13 þrista í leiknum, góð hittni hjá okkar mönnum. Magni Hafsteins vildi greinilega vera með í þristaregninu og reyndi nokkrar tilraunir við þristinn en án árangurs. Magni greinilega hugsað “everybody is doing it” en því miður fyrir Magna þá voru það allir nema hann sem voru að hitta.

Sigrinum og sæti í undanúrslitum fagnað að hætti Tindastóls á miðjum vellinum (sjá video) undir dyggri leiðsögn Hannesar.

Sagan segir að Ólafur Örvar, fyrrum formaður Keflavíkur sé að reyna að sannfæra Hannes Inga um að byrja í lögreglunni á Suðurnesjum og að sjálfsögðu spila þá með Keflavík, en það er bara orðið á götunni.

Lokaleikur dagsins var viðureign Litháa og Luxemborg, lítið um þann leik að segja, Litháar pökkuðu leiknum saman, 119 – 40.

Næsti leikur Íslands er gegn Litháen og mun sá leikur skera úr um hvort liðið vinnur riðilinn.