Lokamót Evrópukeppni lögregreglulandsliða fer fram þessa dagana í Limoges, Frakklandi.
Tveir riðlar eru á mótinu þar sem að í A riðli eru með Íslandi lið Frakklands, Litháen og Lúxemborg. Í hinum riðlinum, B, eru Þýskaland, Grikkland, Belgía og Ítalía.

Lið Íslands skipað lögreglumönnum m.a. frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum, Reykjavík, Suðurlandi, Norðurlandi vestra og Ríkislögreglustjóra. Þjálfarar eru þeir Jón Þór Eyþórsson, Stykkishólmi og Ólafur Örvar Ólafsson, Keflavík.

Hér fyrir neðan má sjá dagbókarfærslu fyrsta dagsins frá þjálfurum liðsins:

21.06.2022


Opnunarhátíð þar sem lið voru boðin velkomin til leiks. Fyrsti leikur á milli gestgjafa Frakka og Litháa þar sem Litháar sigldu framúr i þriðja leikhluta og unnu að lokum sigur 57-82. Næsti leikur var Ísland – Luxemborg .. smá fiðringur var í mönnum fyrstu mínúturnar, stórsigur vannst á endanum 77-36 þar sem Snorri Þorvaldsson úr Hveragerði var með 25 stig og Hannes Ingi Másson frá Sauðárkrók 12 stig, hittnin oft verið betri hjá Hannesi. Magnús Ingi Hjálmarsson frá Reykjavík reif niður fráköstin eins og Dennis Rodman gerði forðum daga, 14 stykki.


Næsti leikur var á milli ríkjandi fimmfaldra meistara Grikkja og Þjóðverja. Þetta var blóðugur leikur þar sem tveimur grikkjum og einum þjóðverja var vísað út úr húsi. Leikmönnum var nokk sama þó verið væri að spila við starfsfélaga frá öðru landi, þetta var blóðug barátta þar sem tvö virkilega góð lið mættust. Að lokum fóru Þjóðverjar með sigur af hólmi, 64-75. Þetta var fyrsti leikurinn sem Grikkir tapa í um 17 ár. Seinasti leikurinn var svo á milli Belga og Ítala þar sem Belgar kjöldrógu Ítalina, 37-67.

Höllin í Limoges er heldur betur sögufræg, margir titlar unnist hér á undanförnum áratugum, meistaratitlar sem og evróputitlar.

Næsti leikur Íslands er í dag gegn Frökkum.