Þann fyrsta júlí næstkomandi leikur Ísland lokaleik sinn í fyrri hluta undankeppni HM 2023 er liðið tekur á móti Hollandi í Ólafssal í Hafnarfirði. Ísland hefur þegar tryggt sig áfram í næsta stig keppninnar, en leikurinn er þó mikilvægur fyrir liðið vegna þeirra stiga sem það mun taka með sér á næsta stig. Sem stendur er Ísland með tvo sigra og eitt tap í keppninni og myndi það auka líkurnar á miða á lokamótið stórlega ef liðið næði að leggja Holland í þessum seinni leik.

Hérna er meira um leikinn

Seinni hluti undankeppninnar fer af stað nú seinna á þessu ári og mun Ísland þar vera í L riðil, áfram með Ítalíu og Hollandi, en þá einnig Georgíu, Spán og Úkraínu. Úr þeim riðil munu efstu þrjú liðin svo tryggja sig áfram á lokamót HM 2023.

Hérna er heimasíða mótsins

FIBA fór á dögunum yfir þá möguleika sem í stöðunni eru, en á þeirra lista kemst Ísland ekki í eitt af þeim tólf sætum sem Evrópa á eftir að fylla á lokamótinu, en eru þó taldir næstir inn, eða allt eins líklegir til þess að koma á óvart, líkt og Bosnía, Ungverjaland, Ísrael og Svartfjallaland. Hér fyrir neðan má sjá lista FIBA, en hverju sem því líður er ljóst að aldrei í sögunni hefur Ísland átt eins góðan möguleika á að tryggja sig áfram á lokamót heimsmeistarakeppni.

Hér má sjá lista FIBA