Silfurlið Tindastóls ætlar sér ekki að sitja auðum höndum í sumar eða leggja árar í bát. Baldur Þór Ragnarsson verður áfram þjálfari liðsins á komandi leiktíð en þetta staðfesti hann í samtali við Körfuna fyrr í kvöld.

Baldur hefur þjálfað Tindastól síðustu þrjú tímabil við góðan orðstýr. Auðvitað er mönnum efst í huga árangur hans með liðið á nýliðinni leiktíð en eftir skrambi brösugt gengi framan af vetri sneri liðið algjörlega skútunni við og komust alla leið í oddaleik í lokaúrslitum Subway deildarinnar.

Samningur Baldurs er til eins árs en samkvæmt síðustu fregnum virðist Tindastóll vera að halda lykilmönnum liðsins en þeir Sigtryggur Arnar Björnsson, Pétur Rúnar Birgisson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson skrifuðu allir undir samning við félagið í kvöld.