Valur lagði Tindastól í kvöld í fyrsta úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í Subway deild karla, 80-79. Valur því komnir með yfirhöndina í einvíginu 1-0, en vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér titilinn.

Fyrir leik

Á leið sinni í úrslitin sópaði Valur fyrst Stjörnunni og síðan Íslandsmeisturum Þórs í undanúrslitum á meðan að Tindastóll fór í oddaleik gegn Keflavík í fyrstu umferð áður en þeir unnu Njarðvík 3-1 í undanúrslitunum.

Vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn, en hvorugt hefur liðið unnið þann stóra eftir að fyrirkomulag úrslitakeppni var sett á árið 1984. Fyrir það hafði Valur þó unnið titilinn í tvígang, 1980 og 1983.

Liðin höfðu í tvígang mæst í deildinni í vetur. Vann Tindastóll fyrri leikinn á Sauðárkróki, en Valur seinni leikinn sem var í Reykjavík nokkuð stórt nú í janúar.

Gangur leiks

Heimamenn byrjuðu leik kvöldsins betur og ná að vera fimm stigum á undan þegar aðeins nokkrar mínútur eru liðnar. Stólarnir að svara því og eru sjálfir komnir stigi yfir þegar sá fyrsti er á enda, 17-18. Leikurinn er svo áfram jafn og spennandi allt fram til loka fyrri hálfleiks, þar sem Valur er með þriggja stiga forystu þegar liðin halda til búningsherbergja, 37-34. Stigahæstur Stóla í fyrri hálfleik var Zoran Vrkic með 12 stig á meðan að Kristófer Acox var kominn með 11 stig fyrir heimamenn. Nokkuð ljóst var í þessum fyrri hálfleik að bæði lið áttu helling inni á sóknarhelmingi vallarins, voru t.a.m. 4 af 30 fyrir utan þriggja stiga línuna fyrstu tvo leikhlutana.

Valur fer betur af stað í seinni hálfleiknum og ná að koma forystu sinni í 8 stig á fyrstu mínútum þriðja leikhlutans. Ólseigir Stólar ná þó aftur að minnka muninn og er leikurinn í járnum inn í fjórða leikhlutann, tveggja stiga munur, 64-62. Leikurinn er svo áfram í miklu jafnvægi inn í þann fjórða, munurinn ennþá 2 stig þegar fimm mínútur eru eftir, 76-74. Heimamenn ná svo að halda í þessa naumu forystu allt fram á lokamínúturnar og eru enn 2 stigum á undan þegar tvær mínútur eru eftir, 79-77. Stigi undir fá Stólarnir nokkur góð tækifæri til að stela sigrinum í lokasókn leiksins, en allt kemur fyrir ekki, skot Sigurðar Gunnar Þorsteinssonar og Taiwo Badmus er bæði af og Valur vinnur með minnsta mun mögulegum, 80-79.

Atkvæðamestir

Kristófer Acox var atkvæðamestur í liði Vals í kvöld með 19 stig, 16 fráköst og Callum Lawson bætti við 19 stigum og 5 fráköstum.

Fyrir Stólana var Taiwo Badmus atkvæðamestur með 25 stig og 8 fráköst. Honum næstur var Zoran Vrkic með 17 stig.

Hvað svo?

Annar leikur úrslitaeinvígis liðanna er komandi mánudag 9. maí kl. 20:15 í Síkinu á Sauðárkróki.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)