Njarðvík lagði Hauka í kvöld í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn, 51-65. Íslandsmeistaratitillinn sá annar sem nýliðar Njarðvíkur vinna í efstu deild kvenna, en síðast urðu þær meistarar árið 2012.

Fyrir leik

Bæði hafa liðin skipt með sér sigrum í úrslitunum 2-2, sem og gerðu þau það í leikjum deildarkeppninnar, 2-2, en allir leikirnir 8 hafa unnist á útivelli. Allt í allt hafa Haukar þó einn sigur á Njarðvík í vetur, en hann kom á hlutlausum velli, í Smáranum, í undanúrslitum VÍS bikarkeppninnar.

Fyrir oddaleikinn hafði Njarðvík í eitt skipti unnið þann stóra, 2012. Haukar höfðu í fjögur skipti áður unnið Íslandsmeistaratitilinn, 2006, 2007, 2009 og 2018, en síðast þegar þær unnu hann þá var það einmitt líka eftir oddaleik á heimavelli þeirra í Hafnarfirði gegn Val.

Gangur leiks

Njarðvík voru miklu sterkari aðilinn í upphafi leiks. Ná að byggja sér 9 stiga forystu á fyrstu sex mínútunum, 3-12. Sóknarlega gekk báðum liðum frekar illa undir lok fyrsta fjórðungsins, en Njarðvík var 11 stigum á undan að honum loknum, 5-16. Aftur fara Haukar ekkert sérstaklega vel af stað í öðrum leikhlutanum og þegar að hann er um það bil hálfnaður hafa þær aðeins sett niður þrjú skot af vellinum, í öllum leiknum til þessa og Njarðvík leiðir 12-24. Undir lok hálfleiksins bætir Njarðvík enn frekar við forystu sína og leiða þær með 22 stigum þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 19-41. Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Lovísa Björt Henningsdóttir með 6 stig á meðan að Aliyah Collier var komin með 13 fyrir Njarðvík.

Njarðvíkurkonur eru áfram ógnarsterkar varnarlega í upphafi seinni hálfleiksins. Heimakonur í Haukum ná aðeins að hanga í þeim og koma í veg fyrir að munurinn verði eitthvað mikið meiri. Njarðvík þó meira og minna að er virtist búnar að gera útum leikinn í enda þriðja leikhlutans. Ennþá 22 stiga munur fyrir þann fjórða, 32-54.

Með þristum frá Sólrúnu Ingu Gísladóttur og Haiden Palmer koma heimakonur forystu gestanna niður í 16 stig í upphafi fjórða leikhlutans, 38-54. Ganga þær enn frekar á lagið eftir það og eru komnar aðeins 12 stigum fyrir aftan þegar að fimm mínútur eru eftir, 42-54. Mikið nær komast heimakonur ekki og Njarðvík sigrar að lokum með 14 stigum, 51-65.

Atkvæðamestar

Aliyah Collier var best í liði Njarðvíkur í kvöld og var eftir leik valin verðmætasti leikmaður úrslitanna. Í oddaleiknum skilaði hún 24 stigum og 25 fráköstum. Þá bætti Lavína de Silva við 15 stigum og 10 fráköstum.

Fyrir heimakonur í Haukum var það Helena Sverrisdóttir sem dró vagninn með 8 stigum, 19 fráköstum og Haiden Palmer henni næst með 11 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar.

Haukar: Haiden Denise Palmer 11/6 fráköst/6 stoðsendingar, Helena Sverrisdóttir 8/19 fráköst, Bríet Sif Hinriksdóttir 8, Lovísa Björt Henningsdóttir 7/4 fráköst, Eva Margrét Kristjánsdóttir 6/8 fráköst, Sólrún Inga Gísladóttir 6, Elísabeth Ýr Ægisdóttir 3/6 fráköst, Tinna Guðrún Alexandersdóttir 2, Heiður Hallgrímsdóttir 0, Agnes Jónudóttir 0, María Ósk Vilhjálmsdóttir 0, Jana Falsdóttir 0.


Njarðvík: Aliyah A’taeya Collier 24/25 fráköst, Lavína Joao Gomes De Silva 15/10 fráköst, Helena  Rafnsdóttir  12, Diane Diéné Oumou 12/5 fráköst, Kamilla Sól Viktorsdóttir 2, Dzana Crnac 0, Krista Gló Magnúsdóttir 0, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 0, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 0, Þuríður Birna Björnsdóttir Debes 0, Vilborg Jonsdottir 0/8 fráköst/6 stoðsendingar, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 0.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Márus Björgvin)

Mynd / Njarðvík FB