Nemanja Knezevic til liðs við nýliða Hattar

Miðherjinn Nemanja Knezevic hefur ákveðið að söðla um og ganga til liðs við nýliða Hattar í Subway deild karla fyrir komandi tímabil.

Nemanja kemur frá Vestra þar sem hann hefur leikið síðustu ár bæði í fyrstu og á síðasta tímabili Subway deildinni, en Vestri féll úr deild þeirra bestu eftir að hafa endað í 11. sæti deildarkeppninnar.

Í 22 leikjum fyrir Vestra á tímabilinu skilaði hann 12 stigum, 12 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali í leik.

Höttur endaði í öðru sæti deildarkeppni fyrstu deildarinnar og tryggði sig upp í Subway deildina með því að vinna úrslitakeppni deildarinnar, fyrst gegn Fjölni í undanúrslitum og þá Álftanesi í lokaúrslitum.

Tilkynning:

Við höfum samið við Nemanja Knezevic um að leika með okkur næstu árin. Nemanja sem hefur síðustu 5 ár leikið með Vestra á Ísafirði er væntanlegur austur á Hérað í lok sumars með konu sinni og barni.


Á síðasta tímabili var Nemanja frákastahæstur í Subway-deildinni með 12.2 stig, 12.1 frákast og 3 stoðsendingar að meðaltali í leik.


Mikil ánægja er hjá okkur í Hetti að fá Nemanja til liðsins og mun hann þétta þann hóp sem við erum með fyrir til muna.


Vinna er í fullum gangi að setja saman endanlegan leikmannahóp fyrir Subway deildina næsta vetur!